Ákvörðun um hækkun dregin til baka

Stjórn Selfossveitna hefur dregið til baka ákvörðun um 5% hækkun á gjaldskrá sinni um áramótin og samþykkt að gjaldskráin muni hækka um 3,3% á milli ára.

Með því er stjórnin að svara ákalli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um að sveitarfélög og aðrir aðilar fari sér hægt í gjaldskrárhækkunum í aðdraganda kjarasamninga til að halda verðbólgu í skefjum.

Í bókun fulltrúa meirihlutans segir að ákvörðunin muni að óbreyttu þýða að 2.2 milljóna króna tap verður á rekstri veitnanna fyrir árið 2014. “Það er von fulltrúa D-lista að almenn sátt í þjóðfélaginu er varðar hag heimilanna muni gera það að verkum að ekki komi til taprekstrar á komandi ári, enda útgjöld veitnanna að mestu vísitölutengd.“

Fulltrúar minnihlutans, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista og Andrés Rúnar Ingason, V-lista, létu færa til bókar að þeir fögnuðu því að stjórn framkvæmda- og veitustjórnar hafi tekið tillit til sjónarmiða fulltrúa minnihlutans við gjaldskrárbreytingar Selfossveitna fyrir lokaafgreiðslu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins.