Ákvað fimm ára að verða sirkusstjóri

Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Um næstu helgi hefjast sýningar hjá Sirkus Íslands en sýnt verður í sirkustjaldinu Jöklu sem staðsett er í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Þorlákshafnarmærin Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir er einn sirkusmeðlima og lofar hún rosalegri sýningu.

„Sýningin er töfrandi, skemmtileg, áhugaverð, spennandi, fyndin og það er mikið stuð. Fólk er að fara að sjá allskonar hluti sem þeim dytti ekki í hug að væri í raun hægt að gera. Þetta verður rosalegt show og fólk getur látið sig hlakka til,“ segir Sirrý Fjóla í samtali við sunnlenska.is.

Ljósmynd/Úr einkasafni

Frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna
Sirkus Íslands hefur verið í örum vexti síðan hann hóf starfsemi sína árið 2007. „Árið 2014 fékk sirkusinn loks sirkustjald og byrjaði þá að ferðast með það út um landið. Árið 2019 tók sirkusinn pásu frá því að sýna í tjaldinu en í fyrra reis það á ný og sýningar fóru aftur í gang og við fengum geggjaðar viðtökur. Það voru greinilega allir tilbúnir að sjá sirkus á ný.“

Sirrý Fjóla segir að sýningin sé fyrir allan aldur. „Þetta er alls ekki bara fyrir börn heldur frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og búið til minningar sem munu vara út lífstíð.“ Sirrý Fjóla segir þó að fullorðinssýningin Skinnsemi sé þó aðeins fyrir fullorðna.

Eitt sinn sirkusmeðlimur, alltaf sirkusmeðlimur
Aðspurð hversu margir séu í Sirkus Íslands segir Sirrý Fjóla að það sé ómögulegt að svara því. „Ég í rauninni veit það ekki. Við erum frekar mörg og þó svo allir sem eru í sirkusnum eru ekki endilega að sýna núna þá eru þau partur af fjölskyldunni. Þetta er svona smá eitt sinn skáti, ávallt skáti, stemming.“

Sjálf dansar Sirrý Fjóla á línunni. „Ég er línudansari, það er mitt sérsvið. Þá labba ég og geri allskonar trix á línu, eða vír, sem er 9 mm þykkur.“

Sirrý Fjóla gerir allskonar trix á 9 mm þykkri línu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Æskudraumur sem rættist strax
Sirrý Fjóla hefur átt sér sirkusdraum frá því að hún var lítil stelpa. „Ég var fimm eða sex ára þegar að ég sagði við mömmu og pabba að ég ætlaði að verða sirkusstjóri. Svo man ég að við áttum að gera verkefni í skólanum, um hvað okkur langaði að verða og ég vildi verða sirkusstjóri.“

Þegar Sirrý Fjóla var átta ára sáu foreldrar hennar auglýsingu þar sem var verið að bjóða upp á sirkusnámskeið fyrir krakka og voru fljót að skrá dóttur sína. „Ég man hvað ég var ótrúlega glöð. Ég man meira að segja að á því námskeiði labbaði ég fyrst á línu. Einn kennarinn var að styðja okkur með því að halda í höndina á okkur en ég hrifsaði bara höndina til baka og gekk á línunni.“

„Þá var það svolítið bara ákveðið, að þetta væri eitthvað sem ég ætti að gera. Ég hef verið í sirkus síðan þá, stundum tekið pásur en alltaf gert eitthvað sem tengist þessu lífi.“

Snemma beygist krókurinn. Sirrý litla sippar á bolta. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hefur alltaf elskað allt sem er skrítið og öðruvísi
Sirrý Fjóla segir að það sé svo margt sem heilli hana við sirkusinn. „Það er ótrúlega gaman að ná einhverju trixi sem þú hefur lengi reynt. Það er líka mjög gaman að sýna og sjá viðbrögð áhorfenda, vekja fram allskonar tilfinningar.“

„Svo er það auðvitað félagsskapurinn. Það er bara allt svo töfrandi við sirkus. Ég veit ekki hvað það var sem heillaði mig upphaflega. Örugglega bara hvað þetta er í rauninni „skrítið“ og ég hef alltaf elskað allt sem er skrítið og öðruvísi. Líka hvað þetta er ævintýralegt, allt annar heimur einhvernvegin og það er svo margt mögulegt í sirkus, engin takmörk fyrir því maður getur gert.“

„Ég hvet alla til að kaupa sér miða. Við lofum skemmtilegu showi fyrir alla fjölskylduna eða vinahópinn og bara hverja sem er! Miðasalan er inn á sirkus.is og svo endilega fylgja okkur á Instagram en þar koma allar upplýsingar og verður sýnt bakvið tjöldin,“ segir Sirrý Fjóla að lokum.

Alls verða ellefu sýningar hjá Sirkus Íslands á tímabilinu 11. til 20. júlí.

Sirkus Íslands er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinFjögurra ára afmæli Listasels fagnað
Næsta greinEyþór mætir með Todmobile á upphitunartónleika Kótelettunnar