„Ákváðum að stökkva út í djúpu laugina“

Verslunin Motivo á Selfossi fagnar um þessar mundir 10 ára afmæli. Haldið verður upp á afmælið með ýmsum hætti næstu daga.

„Við verðum með afmælisviku sem endar á afmælisdaginn okkar, þann 22. nóvember. Það verður 20% afsláttur af öllum fatnaði, ýmis tilboð og svo verðum við með gjafaleiki fyrir þá sem versla í búðinni og á Facebook síðunni okkar. Einnig verður útsölumarkaður í kjallaranum hjá okkur um helgina,“ segir Ásta Björg Kristinsdóttir annar eigandi Motivo.

Ásta segir verslunina hafa stækkað smám saman í gegnum árin. „Við höfum tekið eitt skref í einu. Við byrjuðum aðeins með gjafavöru en bættum svo fatnaði við og einnig hafa íslensku hönnunarvörurnar verið að fá meira pláss hjá okkur.“

Verslunin hóf starfsemi sína á Eyraveginum, við hliðina á Veiðisporti en flutti í núverandi húsnæði að Austurvegi 9 árið 2009 og byrjaði verslunin að stækka upp frá því.

Vantaði vinnu yfir vetrartímann
Aðspurð hvernig það hafi komið til að opna verslun sem þessa á Selfossi á sínum tíma segir Ásta að hana hafi vantað vinnu yfir vetrartímann. „Ég var að vinna hjá Icelandair sem flugfreyja á sumrin í hlutastarfi og vantaði vinnu restina af árinu. Mig langaði að búa á Selfossi og ég var nýflutt heim frá Danmörku en ég féll fyrir verslun þar sem var svona lífstílsverslun með gjafavörur og fatnað. Mér fannst vanta svona verslun hér og því ákváðum við mamma að stökkva út í djúpu laugina í sameiningu.“

„Við erum með gjafavörur frá helstu skandinavísku merkjunum, kvenfatnað og fylgihluti og íslenskar hönnunarvörur,“ segir Ásta en þess má geta að orðið Motivo er ítalskt samheita orð yfir hönnun.

Að sögn Ástu koma viðskiptavinir Motivo alls staðar að en íslenskir ferðamenn og heimafólk er langstærsti hópurinn.

„Við erum mjög þakklátar fyrir hvað okkur hefur verið tekið vel og vonumst til að geta vaxið áfram um ókomin ár. Svo hlökkum við til að sjá sem flesta í búðinni þessa afmælisviku,“ segir Ásta að lokum.

Fyrri greinTvær konur fluttar á sjúkrahús
Næsta greinTrúin flytur fjöll