Ákærður fyrir milljónastuld frá björgunarfélaginu

Björgunarmiðstöðin á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrrverandi gjaldkeri Björgunarfélags Árborgar hefur verið ákærður fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti. Umfang brotanna nemur um sautján milljónum króna.

RÚV greinir frá þessu en ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands eftir helgi.

Í ákærunni er maðurinn sagður hafa dregið sér rúmar 14 milljónir á árunum 2010 til 2017 af reikningi björgunarfélagsins. Það er hann sagður hafa gert með reiðufjárúttektum, greiðslu reikninga og með millifærslum út af bankareikningi félagsins inn á eigin reikning og reikning eiginkonu sinnar, samtals 177 tilvik.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir umboðssvik. Í ákærunni er hann sagður hafa misnotað aðstöðu sína sem gjaldkeri og notað kreditkort félagsins 57 sinnum á árunum 2014 til 2016 til að greiða fyrir vörur og þjónustu til eigin nota og notað viðskiptareikninga björgunarfélagsins hjá fyrirtækjum eins og Byko og Húsasmiðjunni. Maðurinn er sagður hafa látið björgunarfélagið greiða þessa reikninga sem gjaldkeri sem hafi verið án heimilda og með öllu ótengd störfum hans fyrir björgunarfélagið.

Maðurinn er að lokum ákærður fyrir að nota sex eldsneytiskort félagsins 186 sinnum á sjö ára tímabili, frá árinu 2010 til ársins 2017. Maðurinn náðist á myndbandsupptöku við notkun á tveimur þessara korta og eitt kortanna sex var hugsað fyrir snjóbíl björgunarfélagsins.

Frétt RÚV

Lögregla rannsakar fjárdrátt gjaldkera BFÁ

Fyrri greinYfir tuttugu manns sagt upp hjá Hafnarnesi VERI
Næsta greinAuglýst eftir myndum fyrir sýningu í Þorlákshöfn