Ákærða gefið tækifæri til að snúa af braut afbrota

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í síðustu viku 19 ára Selfyssing í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað og fíkniefnabrot.

Pilturinn stal fartölvu og fleiri hlutum úr bíl í úthverfi Selfoss í október sl. og í febrúar á þessu ári fann lögreglan 0,2 gr af maríhúana á honum. Pilturinn var þá farþegi í bifreið sem stöðvuð hafði verið í umferðareftirliti.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði sök. Hann hefur áður hlotið dóma m.a. fyrir fjölda þjófnaða og með broti sínu í febrúar sl. rauf hann skilorð frá fyrri dómi.

Pilturinn hefur sótt um í vímuefnameðferð og taldi dómari rétt að gefa ákærða tækifæri til að snúa af braut afbrota.

Níu mánaða fangelsisrefsing hans var því skilorðsbundin til þriggja ára en auk þess var honum gert að greiða verjanda sínum tæpar 50 þúsund krónur í sakarkostnað.

Fyrri greinFramleiða glugga og hurðir á lager
Næsta greinBílvelta við Pétursey