Áin ruddist langt upp á tún

Jakaburðurinn var mikill og stærstu hrannirnar á stærð við bíla. Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson

Gríðarmikið krapaflóð varð í Hvítá í nótt, þar sem áin ruddist yfir Kópsvatnseyrar og síðan upp landið í átt að bæjarstæðinu í Skollagróf í Hrunamannahreppi.

„Áin ruddist hérna töluvert langt upp á tún, sirka 800 metra og eyðilagði allar girðingar og aðra lausamuni sem voru í hennar vegi. Svona stórflóð eru ekki algeng hérna hjá okkur, elstu menn hér í Skollagróf muna ekki annað eins,“ sagði Helgi Valdimar Sigurðsson í Skollagróf í samtali við sunnlenska.is.

Kópsvatnseyrar eru á austurbakka árinnar, um þrjá kílómetra ofan við nýju Hvítárbrúna sem tengir Hrunamannahrepp og Bláskógabyggð.

Vinnuvélar frá verktakafyrirtækinu Orion voru í Grófarnámunni, malarnámu á bökkum Hvítár, fyrir framan Skollagróf en þær björguðust úr flóðinu.

„Grafa sem var í námunni fór í gang og komst í land og öðru var bjargað með henni,“ sagði Helgi en hann tók myndirnar sem fylgja þessari frétt og sýna þær vel hverslags kraftar voru að verki.

Bjarni Sverrisson hjá Orion tyllir sér á stærðarinnar ísjaka. Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson
Vélum og tækjum var bjargað úr Grófarnámunni. Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson
Krapaflóðið var mjög stórt. Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson
Áin ruddist fram og þeytti þessum gám á hliðina. Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson
Stærðarinnar hrannir liggja eftir flóðið. Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson
Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson
Horft fram eftir Kópsvatnseyrum. Við sjóndeildarhringinn eru Miðfell, Langholtsfjall og Vörðufell. Ljósmynd/Helgi Valdimar Sigurðsson
Fyrri greinÞristurinn hans Ragga lagði grunninn að sigri Hamars
Næsta greinGintare tekur við þjálfun yngri flokka