Áhyggjur og vonbrigði á bæjarráðsfundi

Bæjarráð Árborgar fundaði í morgun og bókaði meðal annars áhyggjur af stöðu sjúkraflutninga á Suðurlandi og vonbrigði yfir því að ekki verði haldið áfram með verknámshús FSu.

Bæjarráðið lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu sjúkraflutninga á Suðurlandi.
„Niðurskurður í þjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands kallar á traustar samgöngur og örugga sjúkraflutninga. Bæjarráð skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn í heilbrigðiskerfið þannig að unnt sé að halda uppi eðlilegri þjónustu,“ segir í bókun bæjarráðs.
Þá skorar bæjarráð á þingmenn Suðurkjördæmis að beita sér fyrir því að áfram verði haldið með byggingu Hamars, nýs verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Bæjarráð Árborgar lýsir yfir vonbrigðum með að ekki skuli áætlað að halda áfram með byggingu Hamars en í bókun þess segir að uppbygging verknáms sé mjög mikilvæg fyrir svæðið í heild. Sveitarfélögin hafa þegar lagt til fjármuni til byggingar hússins og hafa vænst mótframlags ríkisins.
Fyrri greinÞörf fyrir á annað hundrað leiguíbúða
Næsta greinRóbert sýnir í bókasafninu