Áhyggjur af kyrrstöðu í samningaviðræðum

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þeirrar kyrrstöðu sem verið hefur í samningaviðræðum ríkisins og Landssambands lögreglumanna (LL) um langt skeið.

„Núgildandi kjarasamningur LL og ríkisins rann út fyrir meira en ári síðan og viðunandi kjaraleiðréttingar til handa félagsmönnum LL hafa verið í biðstöðu til fjölda ára. Slíkt er óásættanlegt,“ segir í áskorun sem LSS sendi frá sér í dag.

„Lögreglumenn gegna samfélagslegu lykilhlutverki sem ekki verður leyst af öðrum aðilum. Lögreglumenn og störf þeirra gegna lykilhlutverki gagnvart skipulagi og framkvæmd almannavarna í  náttúruhamförum, farsóttum og hverju því sem kann að ógna almennings hverju sinni.“

Í ályktun LSS segir ennfremur að lögreglumenn og störf þeirra gangi út á að gæta öryggis almennings og viðbragðsaðila við dagleg störf og athafnir hvenær sem er sólarhringsins alla daga ársins, við hverjar þær aðstæður sem upp kunna að koma.

LSS skorar á samningsaðila LL að ganga til samninga án tafar og tryggja lögreglumönnum viðunnandi launaleiðréttingu, starfskjör og aðbúnað. Slíkt sé allra hagur.