Áhyggjufullar kvenfélagskonur á Skeiðunum

Konur í Kvenfélagi Skeiðahrepps hafa áhyggjur af stöðunni í öldrunarmálum á Suðurlandi nú þegar biðlistar eftir hjúkrunarrými lengjast og lengjast.

Af því tilefni hefur félagið skorað á sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að taka þessi mál til gaumgæfilegrar skoðunar og umfjöllunar.

Þær vekja athygli á því að rætt hefur verið um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis í Laugarás-læknishéraði til að mæta aukinni þörf fyrir hjúkrunarrými en auk þess telur félagið brýnt að sveitarstjórn styðji við sambærilegan rekstur, sem fyrir er í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn tók undir áhyggjur félagsins á fundi fyrir skömmu og telur sveitarstjórn brýnt að tekið verði á rekstrarvanda öldrunarstofnana í landinu. „Málið er mjög alvarlegt því það þrengir stöðugt að rekstri dvalar- og hjúkrunarheimila eins og á Blesastöðum hjá okkur, hafa daggjöldin ekki hækkað í langan tíma“,sagði Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps í samtali við Sunnlenska.