„Áhuginn er að vakna hjá fólki“

Hjördís Guðlaugsdóttir hefur komið sér upp góðu forðabúri heima hjá sér á Selfossi og er því vel undirbúin ef það skyldi verða vöruskortur á Íslandi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Hjördís Guðlaugsdóttir á Selfossi hefur stundum verið kölluð preppari Íslands en hún er ein af þeim sem stendur á bak við Facebook-hópinn Prepparar á Íslandi, hópur sem inniheldur tæplega 5.800 manns.

„Ætli það hafi ekki í raun byrjað með uppeldinu. Ég er náttúrulega alin upp í sveit og þar var maður vanur búri og frystikistum og svo að rækta það sem landið gaf. Ég hef alltaf verið með einhverja fyrstiaðstöðu en það var í raun ekki fyrr en ég flutti hingað sem ég hafði almennilegt pláss,“ segir Hjördís í samtali við sunnlenska.is.

En hvernig skilgreinir Hjördís preppara? „Svolítið eins og fólk, eða dýr í raun líka, sem undirbúa sig að einhverju leyti fyrir komandi vetur eða harðari tíma með því að koma sér upp forðabúri. Forðabúrið er semsagt til að vera tilbúinn í að mæta utanaðkomandi annmörkunum á að geta auðveldlega nálgast vörurnar. Preppari er líka sá sem er meðvitaður um að styðja íslenska framleiðslu og nýta sér tilboð til að spara í innkaupum.“

Hjördís á forðabúr sem dugar í 2-3 mánuði. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Forðabúr þarf ekki að vera eiginlegt búr
Til að vera preppari er ekki nauðsynlegt að eiga stórt búr. Sjálf er Hjördís ekki með neitt eiginlegt búr en hún er með bílskúr og þar er að finna frystikistu, bílskúrsísskáp, skápa og fleira. Gamall skápur er jafn góð hirsla fyrir matvæli eins og nýr skápur.

Hjördís segir að fljótlega eftir að hún flutti í núverandi húsnæði hafi hún byrjað að safna í forðabúr. „Vegna þess að maður hafði plássið þá fór maður að kaupa í stærra upplagi og líka bara til að spara. Ég hef líka lent í slysi og ýmsu og þá er gott að vita að það sé til nóg,“ segir Hjördís sem hefur búið í núverandi húsnæði síðan árið 2015.

Dugar í 2-3 mánuði
Í covid-inu segir Hjördís að hún hafi keypt aðeins meira af niðursuðuvörum og þurrvörum en það hafi samt ekki verið neitt mikið meira en venjulega. Á meðan aðrir voru að hamstra mat í febrúar síðastliðnum vegna verkfalla og yfirvofandi matarskorts segir Hjördís að hún hafi aftur á móti verið alveg róleg því að hún vissi að hún ætti nóg.

En hvað ætli forðabúrið dugi Hjördísi lengi ef það kæmi til raunverulegs vöru- og matarskorts á Íslandi? „Ef rafmagnið héldi og fyrstikistan þá ætti ég alveg mat fyrir tvo, þrjá mánuði hugsa ég,“ segir Hjördís en þess má geta að þau eru fjögur í fjölskyldunni – þar af tveir botnlausir unglingar eins og hún orðar það sjálf – ásamt hundinum Lappa.

Aðspurð segir Hjördís að bæði vinir og fjölskylda séu mjög áhugasamir um forðabúrið hennar og enginn geri grín að henni fyrir að vera preppari. „Fjölskyldan er náttúrulega vön þessu og hlæja bara að því að ég sé dóttir mömmu minnar, “ segir Hjördís og hlær.

Hjördís er byrjuð að forrækta grænmeti og sumarblóm í bílskúrnum hjá sér sem hún plantar svo út í sumar. Hún leggur áherslu á að fólk þurfi ekki að vera með merkilega græju til að geta forræktað heima hjá sér. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Þarf ekki garð til að rækta gulrætur
Sem fyrr segir er Facebook hópurinn Prepparar á Íslandi sérlega vinsæll. „Ég varð eiginlega óvart stjórnandi prepparasíðunnar á Facebook. Vinkona mín stofnaði þessa síðu og svo varð þetta orðið svo mikið að hana vantaði aðstoð svo að ég bauð mig fram. Maður sér það mjög mikið inni í grúppunni að áhuginn er að vakna hjá fólki á því hvernig er best að koma sér upp góðum matarforða.“

Hjördís segir að covid hafi vakið mjög marga til umhugsunar um þessi mál, það er að eiga nægan matarforða fyrir sig og fjölskylduna sína ef eitthvað kemur upp á. „Sérstaklega að kaupa íslenskt og kaupa beint frá býli. Ég held að áhuginn hafi vaknað á því í covid. Og jafnvel að rækta sjálfur ef maður getur.“

„Facebook-síðan er ekki mjög virk núna, sérstaklega á veturnar en hún er hugsuð þannig að fólk getur til dæmis deilt hvar eru tilboð og hvar er hægt að kaupa beint frá býli og einnig ræktunartillögum,“ segir Hjördís og bætir því við að það hafi færst í aukana að fólk sé að rækta sitt eigið grænmeti og það séu ekkert endilega bara kartöflur sem fólk sé að rækta.

„Í rauninni er það auðveldara fyrir marga að vera með matjurtir en kartöflur. Þannig eru oft salöt og eitthvað svona sem er fljótræktað og auðvelt. Ég hef séð fólk vera að prófa að rækta gulrætur jafnvel í blómapottum úti á svölum.“

Skáparnir fyrir forðabúrið þurfa ekki að vera merkilegir. Gamall skápur er jafn góður og nýr til að geyma þurrvöruna. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Hægt að nota hakk á ótal vegu
Hjördís segir að það sé orðið meira um það að fólk sé farið að taka frá pláss í eldhúsinu til eiga forðabúr. „Það er kannski ekki beint hægt að segja að það sé búr en kannski einn skápur í eldhúsinu sem fólk er að geyma þurrvöru, niðursuðuvörur og svona. Fyrst þegar ég var að byrja að safna þá einhvern veginn keypti maður bara það sem manni datt í hug. En svo smátt og smátt fer maður að spá meira í því hvað maður er að kaupa, hvað fer mest og maður kaupir þá það. Við notum til dæmis mikið hakk, það er hægt að nota það á svo marga vegu og hakk er einmitt hægt að nota með niðursuðuvörum og þurrvörum sem er auðvelt að geyma.“

Hjördís fylgist vel með forðabúrinu sínu og fer til að mynda í Costco einu sinni í mánuði til að versla inn fyrir heimilið. „Þá tékka ég á hvort það vanti til dæmis morgunkorn, einhverjar vörur sem maður kaupir oft þar eins og til dæmis pastasósur og ýmislegt svoleiðis. Ég kaupi til dæmis hreinlætisvörur þar og er með alveg sér hillu fyrir þær,“ segir Hjördís og bætir hlæjandi við að það sé engin sérstök áhersla hjá preppurum að eiga til nóg af klósettpappír. „Mér finnst persónulega gott að eiga alltaf nóg af klósettpappír og kaupi svona heilan sekk í Costco. Það er eitthvað sem ég vandist við úti í Svíþjóð, þar sem ég bjó í nokkur ár. Þar var þetta alltaf gert.“

Mikilvægt að styðja íslenskan landbúnað
Preppar leggja áherslu á að kaupa beint af býli. „Ég hef til dæmis nokkrum sinnum pantað frá B. Jensen, sem er fyrir norðan. Það er gott verð og ef maður kaupir fyrir meira en fimmtán þúsund þá senda þau manni það frítt. Svo er ein kjötvinnsla í Borgarfirði þar sem ég kaupi helst lambakjöt. Maður lærir svona smátt og smátt.“

„Mér finnst frábært að fólk hafi vaknað svolítið í covid – að það þurfi að styðja íslenskan landbúnað. Hvað ætlum við að gera ef við erum einangruð í einhvern tíma?“

Það er nokkur atriði sem Hjördís mælir með að eiga sem grunn í forðabúrinu. „Þurrvara, hakk og bökunarvörur. Ég er reyndar ekki mjög dugleg að baka en krökkunum finnst gaman að baka. Og svo er gott að eiga nóg af eggjum. Mér finnst til dæmis frábært að fá egg hjá fimleikadeildinni. Ég er alltaf áskrifandi að eggjum hjá þeim,“ segir Hjördís og bætir því við hlæjandi að sjálf nenni hún ekki að vera með hænur, auk þess sem fjölskyldan ferðist mikið á sumrin og það yrði bara vesen.

Hjördís segir að hún eigi meira en nóg til af sultum. Hún vill ekki henda rabarbaranum í garðinum og nýtir hann því í sultugerð. Hún fagnar því að það sé kominn frískápur á Selfoss – þannig geti hún til dæmis gefið umfram magn af sultum. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Starir ekki mikið á best fyrir dagsetningar
Verandi preppari ber Hjördís mikla virðingu fyrir matvælum og reynir að henda sem minnst af mat. „Maður hendir samt alltof miklu finnst mér. Ég reyni að nýta grænmeti í ísskápnum sem er á síðasta snúning í súpur eða eitthvað svoleiðis. Það er alltaf hægt að nýta þetta eitthvað. Ég er ekki sú sem starir mikið á best fyrir dagsetningar. Svo finnst mér alveg frábært að það sé kominn frískápur á Selfoss. Ef maður á eitthvað sem er komið á síðasta snúning og sér ekki fram á að gera nýtt það sjálfur þá getur maður farið með það þangað.“

Hjördís segir að börnin hennar séu meira til í að borða grænmetið sem hún ræktar. „Það er einhvern veginn betra á bragðið.“

Kaupir helst beint frá býli
Hjördís segir það að eiga til forðabúr sé eitthvað sem er innbyggt í henni. „Maður er alltaf með meðvitaðri og meðvitaðri um þetta, að passa að kaupa ekki eitthvað sem skemmist. Og kaupa helst beint frá býli ef ég get. Ég kaupi frekar beint frá býli heldur en úr búðunum. Það eru orðnir mjög margir sem eru að selja beint frá býli en kannski veit fólk almennt ekki um þá sem eru að selja. Það mætti kannski að vera meiri almenn vitneskja,“ segir Hjördís og bætir því við að hún sakni þess að hafa REKO ekki lengur en það hætti þegar Jötunvélar lokuðu. „Maður gat pantað kjöt, fisk, kjúkling, brodd og fleira. Borgaði fyrirfram og sótti svo sendinguna í Jötunvélar.“

„Þegar maður er að kaupa beint frá býli þá er maður öruggur hvað maður fær, maður er að styðja íslenskan landbúnað og þá er peningurinn að fara beint til bóndans en ekki milliliðanna,“ segir Hjördís og bætir því við að stjórnvöld mættu styðja mun betur við íslenskan landbúnað. „Líka þetta þegar Reykvíkingar eru að tala um alla þessa styrki til bænda. Það hljómar eins og bændur verði eitthvað rosalega ríkir af þessum styrkjum, en fólk fattar ekki að þessi styrkir fara flestir til milliliðanna en ekki til bændanna,“ segir Hjördís að lokum.

Hjördís ásamt fjölskylduhundinum Lappa. Hjördís passar að sjálfsögðu að eiga nóg til af hundamat fyrir hann. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinKaren Helga til liðs við Selfoss
Næsta greinMörkin komu öll í fyrri hálfleik