Áhugi á verslunarmiðstöð á Hvolsvelli

Smáragarður ehf, rekstrarfélag Kaupáss, hefur sótt um tvær verslunarlóðir á Hvolsvelli, Austurveg 5 og 7. Kaupásmenn vilja sameina lóðirnar og byggja eina stóra verslunar- og þjónustumiðstöð.

Lóðirnar eru á milli Lyfja og heilsu og N1 við þjóðveg nr. 1. Fleiri hafa sýnt lóðunum áhuga, þar á meðal óstofnað verslunarfélag á vegum heimamanna.

„Það er vissulega ánægjulegt að áhugi sé fyrir uppbyggingu hér,“ sagði Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra í samtali við Sunnlenska. Hann segir mikla breytingu hafa orðið á fáeinum árum í kjölfar aukins ferðamannastraums allt árið um kring, sem lýsi sér í því að fyrirtæki vilji nú í auknum mæli byggja upp aðstöðu miðsvæðis á Hvolsvelli.

Ísólfur Gylfi segir að með því yrði væntanlega pláss fyrir fleiri aðila í sömu byggingu. Því þyrfti að breyta deiliskipulagi áður en til framkvæmda kæmi. „En þetta er allt á byrjunarstigi, en við erum vissulega spennt yfir þessari þróun,“ segir Ísólfur Gylfi.

Kaupás á og rekur Kjarvalsverslunina á Hvolsvelli sem verið hefur í umræðunni um hátt vöruverð.