Áhugavert myndband af björgun Halkion

Þann 15. desember 1969 strandaði stálskipið Halkion VE 205 í Skarðsfjöru á Meðallandssandi. Báturinn var í fjörunni í um tvær vikur áður en hann var dreginn af varðskipinu Ægi af strandstað, nánar tiltekið á Gamlárskvöld.

Eyjafréttir sögðu frá því í gær að myndband af björgunaraðgerðum sé nú að finna á Youtube en myndbandið fylgir fréttinni hér að neðan.

„Halkion VE 205 strandaði í Meðallandsfjöru 15. desember 1969 en Varðskipið Ægir dró hann af strandstað á gamlársdagskvöld um kl. 23 og sigldi hann inn í heimahöfn í Vestmannaeyjum að morgni nýjársdags. Fyrirtækið Björgun hf. með Kristinn Guðbrandsson í broddi fylkingar stjórnaði björgunaraðgerðum í landi með dyggri aðstoð frá björgunarsveitinni,“ segir í texta með myndbandinu.

Níu manns voru í áhöfn skipsins og sluppu þeir allir ómeiddir. Skipsströnd voru algeng í Meðallandsfjörunni framan af síðustu öld en viðtali í Tímanum þann 16. desember 1969 segir Eyjólfur á Hnausum, þá áttræður, að strand Halkion sé 31. strandið í fjörunni síðan 1920.

Fyrri greinStórtónleikar í „hráum“ sal
Næsta greinKristinn Þór og Fjóla Signý frjálsíþróttafólk ársins