Áhugaverð gestagata við Laka

Við fjallið Laka hefur verið lögð gestagata sem segir sögu Skaftárelda og frá náttúru Lakagíga.

Gatan er um það bil 500 m löng og liggur í gegnum einn Lakagíganna, vörðuð númeruðum stöðvum.

Við upphaf götunnar er kynningarspjald og litlir bæklingar sem fólk tekur með sér á gönguna. Á hverri stöð má lesa lítið sögubrot eða stuttan texta um tiltekið náttúrufyrirbæri sem sjá má í nánasta umhverfi.

Gestagötunni er ætlað að bæta upplifun gesta og auka tilfinningu þeirra fyrir náttúru svæðisins. Verið er að leggja sambærilegar gestagötur í Ásbyrgi, við Brúarjökul og í Skaftafelli. Verkefnið er styrkt af Vinum Vatnajökuls.