Áheyrnarprufur fyrir Töfrahetjurnar á Selfossi

Næstkomandi þriðjudag, þann 3. júní, verða áheyrnarprufur á Selfossi fyrir Töfrahetjurnar, nýja sjónvarpsþætti sem sýndir verða á Stöð 2 í haust.

Að sögn Einars Mikaels, töframanns, er verið að leita að hressum krökkum sem vilja læra að gera ótrúlega hluti og það er öllum velkomið að koma í prufurnar.

“Það er ekki skilyrði að kunna töfrabrögð en við erum að leita af strákum og stelpum á aldrinum 6-15 ára. Ef þú kannt að töfra, leika, dansa og finnst gaman að koma fram og gleðja aðra þá viljum við hitta þig,” segir Einar en einn strákur og ein stelpa frá hverjum stað verða valin til þess að taka þátt í Töfrahetjunum.

“Ungu hetjurnar sem við veljum verða síðan þjálfaðar af okkur og fá töfrahetjubúning, töfradót og verða gerðir að heiðursmeðlimum í töfrahetjuklúbbnum,” segir Einar.

Einar segir að þættirnir verði troðfullir af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Í þáttunum verða einnig töfradýr sem geta gert alskonar fyndnar og skemmtilegar brellur. Áhorfendur fá einnig að fylgjast með ævintýri tveggja ungra töfrahetja og leiðinni þeirra að taka þátt í sýningu aldarinnar með töfrahetjunum Einari Mikael og Viktoríu.

Þeir sem ætla að mæta í áheyrnarprufurnar þurfa að vera með vel undirbúið atriði sem er ein til tvær mínútur að lengd. Hægt er að skrá sig með því að senda email á tofrahetjur@gmail.com – það sem þarf að koma fram er nafn, aldur, sími – einnig er hægt að skrá sig á staðnum þar sem prufurnar fyrir töfrahetjurnar verða haldnar.

Áheyrnarprufan á Selfossi verður í Fjölbrautaskóla Suðurlands á þriðjudaginn milli kl. 16 og 17.

Meira um áheyrnarprufurnar á Facebook