Áheitahlauparar á ferð um Suðurland

Á morgun, fimmtudaginn 2. júní, leggja þau Signý Gunnarsdóttir, Sveinn Rögnvaldsson, Alma María Rögnvaldsdóttir og Guðmundur Guðnason upp í hringferð um Ísland – hlaupandi.

Hlaupið er til styrktar krabbameinsveikum börnum og fjölskyldum þeirra.

Í janúar í fyrra greindist þriggja ára sonur Sveins og Signýjar með hvítblæði og hefur hann síðan gengið í gegnum strembna lyfjameðferð. Eftir margra mánaða raunir er hann kominn á beinu brautina og er nú í töflumeðferð þar til haustið 2012. Hann er frísklegur í dag og varla hægt að merkja á honum að hann hafi gengið í gegnum gríðarlega þrautargöngu.

Í ágúst í fyrra tóku Sveinn og Signý, Alma María systir Sveins og Guðmundur maður hennar ákvörðun um að hlaupa hringinn í kringum landið fyrir Styrkarfélag krabbameinssjúkra barna og fá þannig tækifæri á að skila til baka til félags sem hefur reynst ómetanlegur stuðningur. Hver hlaupari hleypur að meðaltali um 24 kílómetra á dag og verður því farið yfir tæplega 100 kílómetra daglega. Þann 2. júní verður hlaupið frá Reykjavík til Hellu, 3. júní er áfangastaðurinn Vík í Mýrdal, 5. júní Kirkjubæjarklaustur og síðan áfram austur og norður en hlaupinu lýkur í Reykjavík þann 16. júní.

Hægt er að styrkja verkefnið með því að senda SMS í símanúmerin 904 1001 (1000 kr.), 904 1003 (3000 kr.) og 904 1005 (5000 kr.) Einnig er hægt að greiða með kreditkorti og að leggja beint inn á reikning Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna en allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins, www.mfbm.is, en þar er jafnframt hægt að fylgjast með ferðum hlauparana í rauntíma.

Fyrri greinAfmæli í Handverks-skúrnum
Næsta greinTilraunaræktun á berjum á Suðurlandi