Áheitaganga til styrktar Sjóðnum góða

Árleg tombóla kvenfélagsins var blásin af vegna COVID-19. Mynd úr safni.

Vegna þeirra tíma sem við lifum á hafa takmarkanir vegna COVID höggvið skarð í félagsstarf Kvenfélags Grímsneshrepps.

„Við gátum því miður ekki haldið okkar árlegu Grímsævintýri og Tombólu þetta árið til þess að afla fjár til góðra málefna. Við munum heldur ekki halda okkar árlega jólabingó, sem ávallt hefur verið vel sótt, vegna þeirra fjöldatakmarkanna og fjarlægðarreglu sem enn er við líði,“ segir Laufey Magnúsdóttir, formaður kvenfélagsins.

Þess í stað ætla félagskonur að brydda upp á einhverju nýju til að afla fjár til góðra málefna og halda lífi í félaginu.

„Við ætlum að efna til áheitagöngu þar sem við göngum Sólheimahringinn, um 24 km. Gangan verður laugardaginn 10.október. Við óskum hér með eftir áheitum, sama hver upphæðin er og ætlar félagið að leggja mótframlag, allt að 500.000kr á móti því sem safnast. Við stefnum svo að afhenda þá upphæð sem safnast hefur ásamt mótframlagi frá félaginu fyrir októberlok,“ segir Laufey.

Til að nýta eitthvað af þeim tombóluvinningum sem kvenfélagskonurnar voru búnar að safna, áður en tombólan var blásin af, þá geta þeir sem heita á kvenfélagskonurnar farið í pott og úr honum verða dregnir skemmtilegir vinningar 20. október næstkomandi.

Tekið er á móti áheitum inn á reikning félagsins: 0152-26-020958 kt: 420389-1329 – skýring „áheit“.

Þeir sem vilja fara í pottinn geta sent kvittun á kvenfel@gmail.com og sett í skýringu símanúmer sitt.

Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu, þar á meðal kvenfélaganna. Þetta samstarf hefur staðið síðan árið 2008 og hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.