Aha.is þjónustar fjóra veitingastaði á Selfossi

Meðal veitingastaðanna fjögurra er Samúelsson matbar, sem er í mathöllinni í miðbæ Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrirtækið aha.is hefur nú opnað fyrir þjónustu sína á Selfossi með fjórum veitingastöðum. Þetta eru Subway, Kurdo Kebab, Samúelsson matbar og Krisp restaurant, sem hafa nú opnað fyrir bæði heimsendingu og sóttar pantanir.

„Aha.is er að taka sín fyrstu skref utan höfuðborgarsvæðisins í heimsendingum fyrir veitingastaði og það var ekki að ástæðulausu að höfuðborg Suðurlands varð fyrir valinu, en aha.is hefur heimsent fyrir Nettó á Selfossi í nokkurn tíma,“ segir Gerður Guðnadóttir, markaðsstjóri aha.is.

„Við erum svakalega spennt fyrir þessu stóra skrefi að byrja heimsendingar á Selfossi, og vonum að Selfyssingar taki vel í þessa nýjung, bæði veitingastaðir og bæjarbúar. Aha.is hlakkar til að skutla kvöldmatnum heim til Selfyssinga á 100% rafmagni,“ bætir Gerður við.

Fyrri greinSelfoss ekki í vandræðum með Hamar
Næsta greinGestur leiðir D-listann – Elliði bæjarstjóraefni