Ágúst kvaddur á síðasta vinnudeginum

Ágúst Sigurðsson fráfarandi sveitarstjóri og Eggert Valur Guðmundsson oddviti Á-listans. Ljósmynd/ry.is

Ný sveitarstjórn tekur nú við stjórnartaumum í Rangárþingi ytra en síðasti fundur fráfarandi sveitarstjórnar var síðastliðinn miðvikudag og síðasti vinnudagur Ágústs Sigurðssonar sem sveitarstjóra er í dag.

Eggert Valur Guðmundsson, verðandi oddviti nýrrar sveitarstjórnar, átti fund með Ágústi í morgun, færði honum blómvönd og gjöf og þakkaði Ágústi störf í þágu sveitarfélagsins á umliðnum árum. Ágúst bauð Eggert velkominn til starfa fyrir sveitarfélagið og óskaði honum og nýrri sveitarstjórn velfarnaðar við mikilvæg störf í þágu samfélagsins.

„Ég vil þakka íbúum Rangárþings ytra og öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góða viðkynningu á umliðnum árum. Ég hverf nú af þessum vettvangi þess fullviss að framtíðin er afar björt fyrir sveitarfélagið okkar og tækifærin blasa við í öllum áttum. Ég hef búið við þau forréttindi að starfa með góðu fólki sem ber hag samfélagsins fyrir brjósti og fyrir það vil ég þakka. Sveitarfélagið okkar hefur á að skipa framúrskarandi hæfu og drífandi starfsfólki sem ég veit að mun áfram halda þétt utan um alla þætti starfsins á þessum spennandi framfara- og framkvæmdatímum hér í okkar samfélagi,“ sagði Ágúst við þetta tækifæri.

Klara Viðarsdóttir fjármálastjóri sveitarfélagsins mun gegna starfi staðgengils sveitarstjóra þar til nýr verður ráðinn.

Fyrri greinHeimsþekktur og ögrandi einleikur sýndur á Selfossi
Næsta greinBoðinn velkominn í hamingjuna