Ágúst hinn flinkasti saumamaður

Fyrir skömmu kom góður gestur í heimsókn í Refilstofuna í Sögusetrinu á Hvolsvelli en þar var mættur Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra og bóndi í Kirkjubæ á Rangárvöllum.

Tilefnið var að komið var að því að sauma í Njálurefilinn atburði sem gerðust á Kirkjubæ. Það var því við hæfi að Ágúst tæki þátt í að sauma búrið á Kirkjubæ sem þrællinn Melkólfur brenndi eftir að hafa rænt það að skipan Hallgerðar.

Ágúst þótti hinn flinkasti saumamaður og sama má segja um Dag, son hans, sem mætti með pabba sínum.

Fyrstu sporin í Njálurefilinn voru saumuð í febrúar í fyrra og er áætlað er að vinna við gerð hans taki allt að 10 ár. Fyrr í haust höfðu fimm þúsund manns saumað spor í refilinn en þegar verkinu er lokið verður hann 60-80 metra langur.

Fyrri grein„Þar sem ljósgrýtið glóir“ sigraði
Næsta greinKristinn setti Íslandsmet