Ágúst Helgi Ungi bóndi ársins

Keppnin Ungi bóndi ársins var haldin í tengslum við sveitahátíðina Tvær úr Tungunum í Reykholti um síðustu helgi. Sigurvegari varð Ágúst Helgi Sigurðsson í Birtingaholti.

Dagurinn hófst á fundi með formönnum og stjórnum aðildafélaga Samtaka ungra bænda þar sem Sigurður Loftsson formaður LK og Karvel Karvelsson framkvæmdastjóri RML fluttu erindi.

Keppnin var nú haldin í fimmta sinn og í fyrsta skipti á Suðurlandi. Landshlutafélögin sendu lið sem öttu kappi í hraðabraut sem fól m.a. í sér hopp og skrið undir rafmagnsgirðingu, að þræða sláturnál og kasta Gústi skeifurskeifum. Jafnframt reyndi á samvinnu liðanna í rúlluveltu. Eftir hraðaþrautirnar var slegið upp grilli fyrir þátttakendur. Um kvöldið var keppni haldið áfram í barsvari með sveitatengdum spurningum um hrúta og Dalalíf svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt var keppt í einstaklingskeppni í bjórsmakki.

Veðrið lék við keppendur og gesti sem kunnu jafnframt vel að meta litríka lýsingu á keppninni, en kynnir keppninnar var landbúnaðarráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson. Eftir að öll stig höfðu verið talin saman stóð Ágúst Helgi uppi sem sigurvegari og var það í fyrsta skipti í sögu keppninnar sem heimamenn sigruðu. Í liði Sunnlendinga voru auk Ágústs þau Bryndís Eva Óskarsdóttir, Haraldur Ívar Guðmundsson og Jón Hjalti Eiríksson.

Seinna um kvöldið var svo haldið á dansleik í Aratungu þar sem Kaffibrúsakarlarnir, Bjartmar Guðlaugs og sjálfur Geirmundur skemmtu.

Samtök ungra bænda og félag ungra bænda á Suðurlandi þakka gestum fyrir komuna og þátttakendum fyrir skemmtunina.

Fyrri greinLandskeppni smalahunda um helgina
Næsta greinPóstafgreiðslunni troðið við hliðina á búðarkassa