Ágúst hættir hjá KS

Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðasviðs Kaupfélags Skagfirðinga, hefur ákveðið að láta af störfum hjá Kaupfélagi Skagfirðinga eftir 27 ára starf fyrir félagið.

Um það er samkomulag að Ágúst starfi hjá félaginu fram yfir sláturtíð í haust og verði svo til ráðgjafar ákveðinn tíma í framhaldinu.

Á starfstíma Ágústar hefur starfsemi kjötafurðasviðs KS vaxið mikið, ekki síst á síðustu árum. Í dag mynda nokkrar rekstrareiningar kjötafurðasvið félagsins. Það eru; sauðfjár- og stórgripasláturhús á Sauðárkróki, stórgripasláturhús á Hellu, Esja Gæðafæði ehf. – kjötvinnsla í Reykjavík og sauðfjársláturhús á Hvammstanga sem er í sameiginlegu eignarhaldi með Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga.

Í tilkynningu frá KS þakka stjórnendur fyrirtækisins Ágústi gott samstarf og mikið og árangursríkt starf fyrir félagið og íslenska bændur.

„KS er fyrst og fremst matvælaframleiðslufyrirtæki og kjötafurðasvið þess er eitt af lykilsviðum félagsins. Ágúst hefur haft forystu um að þróa það svið á tímum mikilla breytinga og gert það með miklum myndarbrag. Undir hans stjórn hefur umfang starfseminnar aukist mikið. Þetta hefur oftar en ekki verið mjög krefjandi starf sem Ágúst hefur unnið á mjög óeigingjarnan hátt og eru honum færðar miklar þakkir fyrir hans störf,“ segir Sigurjón R. Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri.

Fyrri greinSunnlensku fjallkonurnar 2023
Næsta greinFýluferð í Fellabæ