Afurðir skóga á Suðurlandi kortlagðar

Síðastliðinn föstudag skrifuðu Félag skógareigenda á Suðurlandi og Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga undir samning um áhersluverkefni sem er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands.

Samningurinn er uppá 6 milljónir króna og verkefnið er að kortleggja afurðir skóga á Suðurlandi og möguleika á framleiðslu og sölu á þeim. Niðurstöður þeirrar vinnu verða svo nýttar til ákvarðanatöku við stofnun rekstrarfélags sem mun framleiða og selja afurðir skóga á Suðurlandi.

Skógar á Suðurlandi hafa vaxið mun hraðar en menn gerðu sér vonir um fyrir rúmum tveim áratugum þegar skipulögð skógrækt á grundvelli Suðurlandsskóga fór af stað, svo nú þegar er mikið magn af viði tilbúið í skógunum, og á næstu árum mun það magn aukast verulega. Því er orðið brýnt að huga að afurðamálum og halda áfram að byggja upp skógrækt og skógarvinnslu sem alvöru atvinnugrein, enda er markmiðið að skógarbændur geti lifað góðu lífi af tekjum af jörð sinni.