Aftur til starfa eftir tveggja ára eldgosahlé

„Það er mikill hugur í okkur að fara aftur af stað en síðustu tvö ár hafa verið endaslepp hjá okkur enda þjónustan nánast legið niðri vegna eldgosa."

Þetta segir Benedikt Bragason, sem rekur ferðaþjónustuna Arcanum, snow.is, við Mýrdals- og Sólheimajökul. „Fyrst var það gosið í Eyjafjallajökli og svo þegar við vorum að fara af stað aftur kom spýja úr Grímsvötnum. Við vonum að þetta verði í lagi núna en þetta er vissulega búið að vera erfitt.”

Benedikt og kona hans, Andrína Guðrún Erlingsdóttir, hafa mikla reynslu af ferðalögum á fjöllum. Undanfarin tuttugu ár hafa þau rekið ferðaþjónustu við Mýrdalsjökul og farið með ferðalanga upp á jökulinn og inn á hálendið á vélsleðum og jeppum.

Benedikt segir að boðið verði upp á nýjungar, eins og ísklifur við Sólheimajökul. Hléið á rekstrinum sem staðið hefur í tvö ár gerir það að verkum að pantanir eru litlar enda verður að hefja kynningar og markaðsstarf á nýjan leik.

„Við vitum vel að þetta er mikil vinna framundan en við látum ekki deigan síga, við ætlum að ná þessu aftur á strik,” segir Benedikt að lokum.