Aftur hægt að sækja um tjónabætur

Sveitarstjórn Skaftárhrepps úthlutaði í júní rúmlega 17,1 milljón króna í tjónabætur vegna Skaftárhlaupsins í október í fyrra.

Alls bárust umsóknir frá sex aðilum, samtals að upphæð rúmlega 22,5 milljóna króna. Í skilyrðum fyrir úthlutunina kom fram að greiddar yrðu bætur vegna tjóns á varnargörðum, óskráðum vegum og girðingum.

Hæstu bæturnar fóru að Skaftárdal, 6,5 milljónir króna vegna vegaskemmda og varnargarðs. Ytri-Ásar fengu 4,8 milljónir króna vegna skemmda á varnargörðum og Veiðifélagið Eldvatn 3 milljónir króna vegna vegaskemmda. Þá fékk Múli rúmlega 1,9 milljónir króna vegna vegaskemmda, Botnar 750 þúsund vegna vegaskemmda og Búland 200 þúsund vegna tjóns á girðingum.

Í fjárframlagi ríkissjóðs var gert ráð fyrir 30 milljónum króna í bætur, og þar sem þessi úthlutun náði ekki þeirri tölu hefur sveitarstjóri auglýst aftur eftir umsóknum til þeirra sem hafa orðið fyrir annarskonar tjóni en skilyrðin sögðu til um. Ekki verða þó veittir styrkir fyrir því tjóni sem bætt er af öðrum sjóðum, s.s. Bjargráðasjóði.