Aftur brotist inn í Bjarnabúð

Í morgun barst lögreglu tilkynning um að í nótt hafi verið brotist inn í Bjarnabúð í Reykholti. Líklegt er að sömu aðilar hafi verið að verki og í innbroti í sömu verslun í síðustu viku.

Þjófarnir brutu rúðu með steini og komust þannig inn í verslunina. Þeir stálu nokkrum vindlingalengjum og neftóbaki.

Aðfaranótt sumardagsins fyrsta var einnig brotist þarna inn og líka inn í verslunina í Þrastarlundi við Sog.

Nákvæmlega eins var staðið að öllum þessum innbrotum og allar líkur til að sömu einstaklingar hafi verið að verki.

Ekki liggur fyrir nánari tímasetning á innbrotinu en lögreglan biður þá sem veitt geta upplýsingar um þessi innbrot að hafa samband í síma 480 1010.