Aftakaveður í kortunum – Búist við veglokunum

Allir viðbragðsaðilar á Suðurlandi eru nú að undirbúa sig fyrir óveðrið sem á að ganga yfir landið á næsta sólarhring.

Lögreglan á Suðurlandi hvetur fólk til þess að ganga frá þeim munum sem mögulega geta fokið til að koma í veg fyrir tjón.

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands, sem spáir aftakaveðri með appelsínugulum veðurviðvörunum um allt land.

Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað geti gerst af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar er ógnað.

Samkvæmt upplýsingum frá Bliku hvessir strax í kvöld sunnanlands og með skafrenningi og hríðarmuggu í Mýrdal. Veðrið versnar svo mjög í nótt og verður vindur varasamur snemma í fyrramálið, sums staðar af fáviðrisstyrk (32 m/sek) sunnantil.

Búist við veglokunum
Reiknað er með að Hellisheiði, Þrengslum og Sandskeiði verði lokað kl. 2 í nótt til kl. 15 á morgun. Búast má við lokun á Suðurstrandarvegi kl. 1 í nótt til kl. 14 á morgun.

Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði verður líklega lokað kl. 4 í nótt til kl. 15 á morgun.

Búist er við lokun á Suðurlandsvegi, milli Hvolsvallar og Víkur í Mýrdal, kl. 3 í nótt til kl. 14 á morgun.

Fyrri greinEva María afreksmaður frjálsíþróttadeildar Selfoss
Næsta greinLokanir vegna veðurs