Afsláttur í Raufarhólshelli á alþjóðlegum degi hella

Í Raufarhólshelli. Mynd úr safni.

Á morgun, 6. júní, er alþjóðlegur dagur hella haldinn hátíðlegur um allan heim. Raufarhólshellir tekur þátt í að fagna þessum degi í samstarfi við Alþjóðlega sýningarhellasambandið.

Markmiðið með því að halda upp á þennan dag er að auka vitund fólks um mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náttúrunni og beina sjónum að hlutverki hella í vistkerfum okkar. Lífrænn fjölbreytileiki er mikill í hellum og þeir þjóna mikilvægu hlutverki víða um heim þegar kemur að grunnvatni til neyslu, auk þess að bjóða upp á jarðfræðileg undur sem oft finnast eingöngu í hellum. Þá taka fyrirtæki, sem hafa gert upp hella og boðið upp á ferðir í þá, á móti um 150 milljónum manna árlega.

Raufarhólshellir er þar engin undantekning, en hellirinn er sá vinsælasti á landinu eftir að hann var gerður upp og opnaður aftur fyrir almenningi 1. júní 2017. Hellirinn hefur einnig unnið til fjölmargra alþjóðlegra verðlauna fyrir náttúrulegu lýsinguna sem smíðuð var inn í hann.

„Eftir að hafa fjarlægt fleiri tonn af sorpi úr hellinum, smíðað palla og lýst hann upp árið 2017 hefur okkur tekist að vernda hann gegn frekari skemmdum af mannavöldum. Við tökum á móti tugþúsundum gesta í hellinn á hverju ári og því er mikilvægt að vel sé vandað til verka svo við getum notið þeirrar náttúrufegurðar sem finna má í Raufarhólshelli og verndað hann fyrir komandi kynslóðir,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri Raufarhóls ehf, rekstraraðila hellisins.

„Við höfum einnig lagt okkur fram við að kynna hellinn fyrir Íslendingum með því að bjóða upp á frían aðgang í hann, nú síðast í maí á þessu ári. Viðtökurnar voru frábærar og var hellirinn fullbókaður á 5 mínútum. Auk þess tökum við á móti fjölmörgum skólahópum alls staðar að úr heiminum árið um kring til að kynna fyrir þeim hvað leynist undir yfirborðinu á Íslandi,” segir Hallgrimur.

Opið verður í Raufarhólshelli frá kl. 9:00 á morgun og finna má sérstakan afsláttarkóða á samfélagsmiðlum fyrirtækisins sem gildir á alþjóðlega degi hella 6. júní (á morgun) ef fólk hefur áhuga á því að skoða hellinn.

Fyrri greinEldur í spenni á Nesjavöllum
Næsta greinSelfoss í Meistaradeild Evrópu