„Afskaplega hamingjusamur í dag“

Guðjón, Ásta, Gísli og Leó munda skóflurnar að viðstöddum gestum í miðbænum á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fulltrúar Sigtúns þróunarfélags og Sveitarfélagsins Árborgar tóku í dag fyrstu skóflustungurnar að nýjum miðbæ á Selfossi.

Það voru Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Ásta Stefánsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri og þeir Guðjón Arngrímsson og Leó Árnason frá Sigtúni þróunarfélagi sem munduðu skóflurnar.

Eftir langan undirbúningstíma segir Leó ánægjulegt að sjá verklegar framkvæmdir hefjast.

„Já, þetta er búið að vera ansi langt ferli. Hins vegar er þetta líka stórt verkefni og eftir á að hyggja er ágætt að ferlið var langt. Það er búið að taka miklum og góðum breytingum í meðförum, þannig að ég er afskaplega hamingjusamur í dag,“ sagði Leó í samtali við sunnlenska.is.

„Nú verður farið í uppgröft á svæðinu og gatnagerð og í framhaldi af því hefst uppbygging á húsunum og við reiknum með því að þessi fyrsti áfangi verði tilbúinn vorið 2020. Við leggjum áherslu á að byrja á Mjólkurbúshúsinu sem allra fyrst, það er stórt og mikið hús og með miklum kjallara, þannig að það verður það sem við munum sjá fyrst koma upp úr jörðinni,“ bætti Leó við.

Það viðraði ekki vel til útivistar í miðbænum í dag, rok og rigning á þessum nóvemberdegi, en Leó lítur bjartsýnn til framtíðar. „Svæðið ber það með sér að það þarf að byggja þarna upp og mynda skjól, og það verður sól á Selfossi eftir þetta.“

Fyrri greinHamar tapaði fyrir vestan
Næsta greinSjö marka tap í Póllandi