Áframhaldandi uppbygging í Skaftárhreppi

Þjónustumiðstöð almannavarna á Kirkjubæjarklaustri var opnuð í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum til að aðstoða heimamenn fyrir austan við uppbyggingastarfið.

Meðal verkefna þjónustumiðstöðvarinnar er að skipuleggja hreinsunarstörf sjálfboðaliða í samstarfi við heimamenn og ýmis önnur aðstoð vegna eldgossins. Fjöldi sjálfboðaliða hefur lagt hönd á plóginn við hreinsunarstörf á svæðinu og er sú aðstoð ómetanleg.

Í dag var 30 manna hópur sjálfboðaliða við störf á fótboltavellinum, við skólann og elliheimilið á Kirkjubæjarklaustri.

Nokkuð hefur borið á að vatnsból hafi stíflast vegna ösku og hafa nokkrar nýjar holur verið boraðar þar sem þetta vandamál hefur komið upp.

Haldnir hafa verið upplýsingafundir í héraði sem hafa verið vel sóttir. Í síðustu viku var haldinn fjölmennur upplýsingafundur á vegum Búnaðarsambands Suðurlands með aðkomu Bændasamtakanna, Landgræðslunnar, Matvælastofnunar og Landbúnaðaháskólans. Þar var farið yfir efnainnihald og áhrif gosösku á gróður, heyöflun, endurræktun, áburðargjöf, heymiðlun, afrétti og beitarlönd. Á þeim fundi kom fram að Bjargráðasjóður mun starfa eftir sömu reglum og eftir eldgosið í Eyjafjallajökli.

Samráðshópur áfallahjálpar í umdæminu fundaði í gær á Kirkjubæjarklaustri ásamt samráðshópi áfallahjálpar í Samhæfingarstöðinni í Reykjavík. Farið var yfir stöðu mála og lagður grunnur að frekara samráði félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og prestsþjónustu innan umdæmisins. Hóparnir voru sammála um mikilvægi þess að eyða óvissu meðal íbúa á sem flestum sviðum og tryggja gott upplýsingaflæði.

Þjónustumiðstöðin er opin daglega og er viðvera frá kl. 10:00 til 13:00 en utan viðverutíma eru starfsmenn á ferð um svæðið, hitta íbúa og skipuleggja aðstoð.

Fyrri greinLeikskólarnir við ströndina sameinaðir
Næsta greinAlgjörir yfirburðir Selfoss