
Sveitarfélagið Árborg hefur hlotið áframhaldandi styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til verkefnisins Elja virkniráðgjöf.
Verkefnið, sem hófst árið 2024, miðar að því að styðja við ungmenni á aldrinum 16–29 ára sem standa utan vinnu, skóla eða virks félagslegs stuðnings. Sérstök áhersla er lögð á aldurshópinn 16–17 ára sem er í mestri áhættu á félagslegri einangrun, brotthvarfi úr skóla og vanlíðan.
Samkvæmt nýjum samningi, sem undirritaður var í október síðastliðnum, fær Árborg styrk að fjárhæð 19 milljónir króna til áframhaldandi þróunar og reksturs Elju til loka árs 2027.
„Hjá Elju er ungmennunum mætt þar sem þau eru, á þeirra forsendum,“ segir Ellý Tómasdóttir, verkefnastjóri Elju virkniráðgjafar hjá Sveitarfélaginu Árborg. „Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að halda áfram þessu mikilvæga starfi og þróa verkefnið áfram.“
Að verkefnistímanum loknum verður til handbók og verkfærakista byggð á reynslu Elju, sem önnur sveitarfélög og þjónustusvæði geta nýtt sér við uppbyggingu sambærilegra úrræða fyrir ungt fólk.
