Áframhaldandi samstarf um vefsíðuna Safe Travel

Samkomulagið var staðfesti í húsakynnum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Ljósmynd/Aðsend

Menningar og viðskiptaráðuneytið, Samtök ferðaþjónustunnar og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa endurnýjað samstarf sitt um Safe Travel verkefnið.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og Kristján Þór Harðarsson framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar skrifuðu undir samning um áframhaldandi rekstur og stuðning Menningar og viðskiptaráðuneytisins og Samtaka ferðaþjónustunnar við verkefnið húsakynnum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Samningurinn gildir út árið 2024.

„Ég vil þakka Landsbjörgu sérstaklega fyrir árangursríkt samstarf í þessu vel heppnaða verkefni. Við viljum að allir geti notið ferðalagsins á Íslandi á öruggan hátt. Vefsíðan safetravel.is er mikilvægur hluti af upplýsingamiðlun til allra sem heimsækja landið okkar,“ segir Lilja Dögg.

Slysum fjölgar ekki miðað við fjölgun ferðamanna
Markmið samningsins er eins og áður að efla öryggismál og slysavarnir ferðamanna með því að skapa gott aðgengi fyrir ferðamenn og ferðaþjónustuaðila, að upplýsingum um ábyrga ferðahegðun, umgengni um náttúru og aðstæður í landinu.

Kristján Þór Harðarsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að það sé mikið ánægjuefni að fjármögnun verkefnisins sé tryggð næsta ár.

„Mikilvægi þess má kannski helst sjá í slysatölum ferðamanna, en þrátt fyrir gífurlega aukningu á komum ferðamanna til landsins, hefur slysum sem betur fer ekki fjölgað í neinu hlutfalli við aukinn fjölda ferðamanna,“ segir Kristján.

Öryggi einn mikilvægasti þátturinn
Í samræmi við samninginn mun Slysavarnafélagið Landsbjörg áfram sinna rekstri heimasíðunnar safetravel.is, ásamt þróun og rekstri skjáupplýsingakerfis ferðamanna um land allt. Jafnframt felur samningurinn í sér útgáfu og dreifingu á öðru fræðsluefni til ferðamanna ásamt því að þróa áfram SafeTravel smáforritið.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur nú um mörg ár tryggt heilsársviðveru í stafrænni upplýsingamiðstö ferðamanna, þar sem upplýsingum er safnað, þeim miðlað og samskipti átt við ferðamenn um m.a. færð og veður sem og aðrar þær viðvaranir sem tryggja öryggi ferðamanna.

Samtök ferðaþjónustunnar munu áfram veita Slysavarnafélaginu Landsbjörg stuðning í formi vinnuframlags starfsmanna SAF vegna ýmissa verkefna tengd samstarfinu.

„Öryggi er einn mikilvægasti þátturinn í skipulagningu ferða um Ísland. Vefsíða Safetravel hefur fest sig í sessi sem mikilvægasta upplýsingaveitan varðandi öryggi ferðamanna. Hún er ómetanleg fyrir bæði ferðamenn og ferðaskipuleggjendur. Áframhald þessa samvinnuverkefnis er því rökrétt og mjög ánægjulegt,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

5 þúsund heimsóknir á venjulegum degi
Á venjulegum degi, þegar ekkert er að veðri fær vefur SafeTravel um 5 þúsund heimsóknir. Þegar gaus við Litla Hrút í sumar voru heimsóknir á vefinn um 8 þúsund á hverjum klukkutíma fyrsta dag sem gaus. Fyrsta sólarhringinn sem gaus við Sundhnúka voru 32 þúsund heimsóknir á vefinn.

Íslendingar eru í stórauknum mæli farnir að nýta sér vefinn en af ferðamönnum eru Bandaríkjamenn duglegastir að sækja sér upplýsingar þangað, þar á eftir Þjóðverjar og Bretar.

safetravel.is

Fyrri greinBrýnt að styrkja sjúkraflutninga á Suðurlandi með sjúkraþyrlu
Næsta greinHafsteinn útnefndur blakkarl ársins