Áfram unnið á óvissustigi

Áfram er unnið á óvissustigi vegna Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi. Mælingar síðasta sólarhring hafa sýnt að vatnshæð og rafleiðni fara ennþá minnkandi.

Sérfræðingar á vegum Veðurstofunnar hafa greint fyrstu niðurstöður gasmælinga við Jökulsá á Sólheimasandi og upptök hennar.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á Hvolsvelli mælast áfram til þess við ferðaþjónustufyrirtæki, fulltrúa annarra atvinnustarfsemi, ferðamenn og almenning á svæðinu að fara eftir ráðleggingum Veðurstofunnar og Vinnueftirlitsins á meðan óvissustig er í gildi vegna flóðahættu og hættu sem getur stafað af eitruðum gastegundum.

Ferðaþjónustufyrirtæki eru sérstaklega hvött til þess að upplýsa viðskiptavini sína um ástand mála.

Ferðafólki og fararstjórum er því ráðlagt að halda sig í a.m.k. 100 m fjarlægð frá Jökulsá á Sólheimasandi og eindregið er varað við því að nálgast uppstreymisstaðina því eitraðar lofttegundir gætu valdið fólki heilsutjóni og jafnvel dauða.

Hæstu H2S gildin eru yfir hættumörkum sem skilgreind eru þannig að heilsu fólks er hætta búin ef það andar að sér þessum styrk lofttegundarinnar í 15 mínútur. Ef engar varnir eru notaðar er því veruleg hætta á augnskaða og öndunarerfiðleikum. Hæsta mæligildið á H2S er meir en 11-falt yfir ofangreindum 15 mínútna hættumörkum.
Fyrri greinSérhæfð björgunarbifreið verður staðsett í Vík
Næsta greinBryggjugleði við Herjólfshúsið