Áfram unnið að áfangastaðaáætlun

Hjálparfoss í Fossá í Þjórsárdal.

Fyrsta fasa við gerð Áfangastaðaáætlunar Suðurlands er nú lokið en áætlunin er afurð umfangsmikillar 12 mánaða vinnu undir forystu Markaðsstofu Suðurlands.

Rúmlega 40 manns unnu þétt saman í vinnuhópum á svæðunum þremur auk þess sem tekin voru viðtöl og farið í heimsóknir til yfir 30 aðila. Einnig mættu um 100 manns á íbúafundi sem haldnir voru á öllum svæðum en að auki voru send drög til umsagnar og athugasemda til allra sveitarfélaga á Suðurlandi.

Áfangastaðaáætlun er heildstæð áætlun sem nær yfir samspil ferðaþjónustunnar, samfélagsins og náttúrunnar. Innan hennar er dregin fram framtíðarsýn svæðisins á sviði ferðaþjónustunnar, helstu markmið og aðgerðir til að láta framtíðarsýnina verða að veruleika þannig að jafnvægi skapist milli ferðaþjónustu, samfélags og náttúru.

Helstu niðurstöður lúta að samgöngum, náttúruvernd, áhrifum ferðaþjónustunnar á samfélög, samtal og samvinnu, gjaldtöku, stýringu og dreifingu ferðamanna, sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu, ábyrgri ferðahegðun, gæði og gæðamálum, upplýsingagjöf, merkingum og fræðslu, öryggi og aðgengi og rannsóknum og hagtölum í ferðaþjónustu.

Næstu skref eru að vinna betur í þeim aðgerðaráætlunum sem komu fram í áætluninni, skoða hverjir eru ábyrgðaraðilar, hvaðan fjármagnið þarf að koma, hvort aðgerðir séu raunhæfar og hvernig aðgerðir tengjast öðrum áætlunum svo að dæmi séu tekin.

Einnig verður farið í kynningu á áætluninni og samræmingu með helstu hagaðilum líkt og sveitarfélögum, ferðamálasamtökum og fyrirtækjum svo að dæmi séu tekin.

Stefnt er að birta áætlunina í lok sumars.

Fyrri greinSelfoss riftir samningi við Espinosa
Næsta greinMarkalaust á Hornafirði