Áfram staður til fjársjóðsleitar

Nytjamarkaður Hvítasunnukirkjunnar á Selfossi er fluttur að Eyravegi 3 þar sem hannyrðaverslunin Skrínan var áður.

Aron Hinriksson, forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar, segir að í nýja húsnæðinu sé hægt að aðskilja vöruflokka betur. „Það má segja að markaðurinn hækki um einn gæðaflokk en vöruverðið verði áfram jafn lágt,“ segir Aron. „Stemningin verður samt enn þannig að fólk geti stundað hálfgerða fjársjóðsleit.“

Aron segir markaðinn eiga sér orðið traustan kúnnahóp og velgjörðamenn. „Fólk er duglegt við að gefa okkur nytjahluti og tryggir þannig að við séum til staðar þegar því vantar eitthvað ódýrt.“

Ágóði markaðarins rennur til þeirra sem máttvana standa. Til dæmis útdeilir Hvítasunnukirkjan matvöruinneignum vikulega. Yfir hundrað fjölskyldur eru á skrá en markaðurinn ræður þó eingöngu við nokkrar gjafir á ári fyrir hverja og eina fjölskyldu.