Áfram mælt með að sjóða drykkjarvatn

Áfram er mælt með að notendur á Hellu og austan Hellu sjóði drykkjarvatn úr Helluveitu þar til hægt verður að gefa út staðfestingu á vatnsgæðum eftir sýnatöku.

Niðurstöður sýnatöku Heilbrigðiseftirlits Suðurlands benda til að yfirborðsvatn hafi komist í vatnsból hjá Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps – Helluveitu í síðustu viku. Ekki er talið að mengunin valdi heilsutjóni hjá heilbrigðum einstaklingum.

Strax var gripið til aðgerða og er talið öruggt að ástæður vandans í Helluveitu hafi fundist og komið hafi verið í veg fyrir að þetta ástand endurtaki sig.

Til að gæta fyllsta öryggis er þó áfram ráðlagt að sjóða drykkjarvatn á meðan einhverjar líkur eru á að yfirborðsmengað vatn sé í einhverjum vatnslögnum á Hellu og austan Hellu.

Fyrri greinSkóga­safn leit­ar að for­stöðumanni
Næsta greinBókanir fulltrúa Samfylkingarinnar vegna breytinga á deiliskipulagi í miðbæ Selfoss