Áfram hjá Arionbanka þrátt fyrir óánægju vegna lokunar

Hveragerðisbær. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Hveragerðisbær verður áfram í bankaviðskiptum við Arionbanka en bærinn bauð út bankaþjónustu sveitarfélagsins vegna óánægju með lokun útibús Arionbanka í Hveragerði í sumar.

Bærinn óskaði eftir tilboðum í bankaþjónustu frá þeim bönkum sem reka útibú á Suðurlandi, þ.e. Arionbanka, Íslandsbanka og Landsbankanum. Óskað var eftir upplýsingum um hvaða þjónustu bankarnir væru tilbúnir til að veita íbúum í Hveragerði og einnig óskað tilboða í helstu viðskipti Hveragerðisbæjar.

Bæjarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum að semja um áframhaldandi viðskipti við Arion þar sem bankinn býður hagstæðustu viðskiptakjörin fyrir Hveragerðisbæ og jafnframt örlitla þjónustu við íbúa bæjarins i formi innlagnarhraðbanka sem aðgengilegur verður allan sólarhringinn, viðveru og þjónustu vikulega við umræddan hraðbanka auk kennslu og aðstoð við íbúa á Dvalarheimilinu Ási í notkun á stafrænni þjónustu.

Sérkennilegt að sjá útibú hlið við hlið á Selfossi
Í bókun bæjarstjórnar segir að það séu mikil vonbrigði að enginn bankanna skuli sjá 
hag sinn í því að opna útibú í Hveragerði, í bæjarfélagi sem telur um 2.750 íbúa auk mikils fjölda innlendra jafnt sem erlendra ferðamanna sem hér dvelja til lengri eða skemmri tíma.

„Það er sérkennilegt að sjá að allir bankarnir telja nauðsynlegt að hafa útibú, svo til hlið við hlið, á Selfossi á sama tíma og íbúum Hveragerðisbæjar er sagt að engin nauðsyn sé að hér sé útibú enda sé hægt að sinna öllum viðskiptum við banka rafrænt. Sú staðreynd ætti að gera það mögulegt að útibúum bankanna væri dreift jafnar í þéttbýliskjarna svæðisins en nú er gert,“ segir meðal annars í bókun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar.