Áforma tugmilljarða fjárfestingu í Skaftárhreppi

Suðurorka ehf áformar að fjárfesta fyrir um 36 milljarða króna í Búlandsvirkjun í Skaftártungu í Skaftárhrepp ef til þess fást leyfi.

Virkjunarkosturinn gengur út að veita Skaftá neðan Hólaskjóls á Nyrðri Fjallabaksleið í göngum inn á Þorvaldsaura í lóðrétt fallgöng til neðanjarðarstöðvarhúss í Réttarfelli og veita vatninu að lokum um göng í farveg Skaftár við Búland. Raforkuvinnsla gæti hafist árið 2018 ef áætlanir Suðurorku ganga eftir. Áætlað uppsett afl Búlandsvirkjunar er 150 MW og orkugeta 970 GWst á ári.

Suðurorka ehf er félag í helmingseigu Íslenskrar Orkuvirkjunar ehf og HS Orku hf, en nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir fjárfestu nýverið í tæplega fjórðungshlut í HS Orku. Á vegum Suðurorku hefur á tveimur síðustu árum verið unnið að undirbúningi Búlandsvirkjunar í Skaftártungu. Athuganir Suðurorku á arðsemi verkefnisins lofa góðu en enn hefur ekki verið leitað eftir samningum við hugsanlega raforkukaupendur enda er kosturinn eins og margir aðrir hluti 2. áfanga rammaáætlunar.

Suðurorka ehf er stofnuð í kringum samninga við landeigendur og meirihluta vatnsréttarhafa til undirbúnings og virkjunar Skaftár.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að landeigendasamningarnir gangi út á að landeigendur og vatnsréttarhafar fá greidd auðlindagjöld sem nema hlutfalli af raforkusölu virkjunarinnar og fer hlutfallið hækkandi eftir því sem á samningstímann líður. Samningarnir eru sambærilegir þeim sem Íslensk Orkuvirkjun gerði við Seyðisfjarðarkaupstað vegna 9,8 MW virkjunar í Fjarðará. Auðlindagjöld landeigendasamninga Suðurorku við landeigendur í Skaftárhrepp eru reiknuð á svipaðan hátt og hæstu kröfur vatnsréttarhafa vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Á árinu 2010 keypti Suðurorka niðurstöður áralangra rannsókna og hönnunarvinnu Landsvirkjunar á vatnasviðinu. Í júlí 2010 fékk Suðurorka rannsóknarleyfi á vatnasviði Skaftár og tók yfir vatnarannsóknir á svæðinu frá sama tíma.

Nú í júní 2011 hófst formlega vinna við mat á umhverfisáhrifum þegar Suðurorka auglýsti drög að tillögu að matsáætlun fyrir Búlandsvirkjun. Í drögunum voru kynntir þeir umhverfisþættir og áhrifasvæði sem verða metin. Fljótlega má gera ráð fyrir að Skipulagsstofnun sendi út tillögu að matsáætlun til umsagnar og athugasemda og fagnar Suðurorka öllum þeim ábendingum sem um tillöguna munu berast svo fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir við mat á umhverfisáhrifum.