Áforma endurgerð gamalla húsa

Endurbygging stendur fyrir dyrum á gömlum húsum að Hlíðarenda í Ölfusi og er þess vænst að á næsta ári verði þarna komin falleg þyrping gamalla húsa.

Jón Ólafsson, aðaleigandi Icelandic Water Holdings hefur fengið Hjörleif Stefánsson arkitekt til að skipuleggja endurbyggingu á gamla íbúðarhúsinu að Hlíðarenda sem er í eigu Icelandic Water Holdings ehf. Húsið var byggt árið 1914 og hefur verið óíbúðarhæft um langt skeið.

Hefur málið farið fyrir bygginganefnd sveitarfélagsins Ölfuss og eru sum leyfi komin en annara er beðið. Framkvæmdir hófust í sumar.

Áskilið er að vinna skuli að uppbyggingunni með fullu tilliti til upphaflegrar gerðar hússins.

Jón segir að þarna sé ætlunin að koma upp húsum þannig að þau standist veður og vind til að byrja með. Síðar verði þau byggð upp eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Ekki er ætlunin að vera með íbúa í húsinu heldur nota það í tengslum við starfsemi vatnsverksmiðjunnar.

Jón segir að þeir hafi fengið Náttúruminjastofu Íslands til að taka út landið en talsverð skráningarvinna hefur verið unnin í kringum verkefnið. ,,Við viljum halda uppi minningu staðarins og varðveita það sem ber að varðveita þarna,” sagði Jón.

Það er ekki aðeins gamla íbúðarhúsið sem er ætlunin að endurbyggja því hudmyndir hafa vaknað um að endurbyggja skemmu við húsið og tengja notkun húsanna.

Einnig hefur verið skoðað að skipta um þak á húsi því sem er við vatnslindina. Áform eru um að setja skífuþak á öll húsin sem yrði úr íslensku bergi.

hlidarendi_olfusi1900_282191638.jpg
Bæjarmyndin var talsvert önnur að Hlíðarenda um aldamótin 1900.

Fyrri greinKvöldsigling Steina spil endurflutt
Næsta greinHarður árekstur á Skálholtsvegi