Áform Ölfusinga koma RARIK í opna skjöldu

Ljósmynd/Mats Wibe LUnd

Í fjölmiðlum fyrir liðna helgi var fjallað um áform Orkuveitu Reykjavíkur, sveitarfélagsins Ölfus og Títan um að sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi á grundvelli fyrirhugaðs samstarfs um nýtingu jarðhita í Ölfusdal.

„Fréttirnar kölluðu á sterk viðbrögð hjá nágrönnum Ölfuss í Hveragerði en jafnframt komu þær okkur hjá RARIK og dótturfélögum okkar Orkusölunnar og Sunnlenskrar orku í opna skjöldu, enda hefur síðastnefnda félagið varið umtalsverðum fjármunum og vinnu í rannsóknir á nýtingu jarðvarma á svæðinu allt frá árinu 1998,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK.

Magnús Þór Ásmundsson. Ljósmynd/Hreinn Magnússon

Grændalur í verndarflokki rammaáætlunar
Sunnlensk orka sem upphaflega var stofnuð af RARIK og sveitarfélögunum Ölfusi og Hveragerði varð síðar dótturfélag Orkusölunnar ehf. Samkvæmt þeim rannsóknum sem farið var í þá reyndist verulegur jarðhiti vera í Ölfusdal en þó sérstaklega í Grændal. Ekki fékkst á þeim tíma heimild fyrir lagningu vegaslóða í Grændal og því var ekki hægt að hefja þar rannsóknir með tilraunaborunum. Grændalur er nú í verndarflokki rammaáætlunar.

„Sunnlensk orka hefur lagt mikla vinnu og fjármuni í undirbúning og rannsóknir á svæðinu og enn eru áform um að nýta jarðvarma í Ölfusdal við Hveragerði og þá í náinni samvinnu við sveitarfélögin Ölfus og Hveragerði, en Orkusalan, sem er í eigu RARIK, selur stórum hluta íbúa Ölfuss og Hveragerðis rafmagn,“ segir Magnús ennfremur.

Til að koma þessu í framkvæmd lagði Sunnlensk orka inn nýja umsókn um nýtingarleyfi 6. júní síðastliðinn og bíður sú umsókn afgreiðslu Orkustofnunar.

Vekur furðu að OR sæki um rannsóknarleyfi í Ölfusdal
„Fyrirtækið lítur svo á að þótt það hafi á undanförnum árum þurft að bíða eftir afgreiðslu hjá stjórnsýslunni til frekari rannsókna, fyrst vegna vinnu við rammaáætlun og síðan vegna vinnu við löggjöf og leyfisveitingar, þá réttlæti það ekki að umsóknir þess um rannsóknar- og nýtingarleyfi séu settar til hliðar og aðrir séu teknir fram fyrir,“ segir Magnús og bætir við að rétt sé að árétta að skipting vinnslusvæða við Ölkelduháls og Ölfusdal/Grændal sem ákveðin var af landbúnaðarráðherra á sínum tíma var ætlað að liggja til grundvallar væntanlegum rannsóknar- og/eða nýtingarleyfum samkvæmt lögum.

„Að beiðni ráðherra var Orkustofnun fengin til að framkvæma uppskiptingu á svæðinu þannig að til yrðu tvö jarðhitasvæði þar sem að vinnsla á öðru þeirra hefði ekki áhrif á hitt. Niðurstaðan sem Orkustofnun skilaði til ráðherra var þannig að RARIK/Sunnlensk orka myndi fá Ölfusdal/Grændal en Hitaveita Reykjavíkur Ölkelduháls. Í ljósi þess vekur það nokkra furðu að Orkuveita Reykjavíkur skuli núna ætla sér að sækja um rannsóknarleyfi í Ölfusdal,“ segir Magnús að lokum.

Fyrri greinÁrborg selur hluta Björkurstykkis
Næsta grein„Vildum þjappa fólki saman í að skapa eitthvað fallegt“