Afmælisboð í Fischersetrinu

Í tilefni af 80 ára afmælis stórmeistarans Friðriks Ólafssonar býður Fischersetrið á Selfossi til afmælisboðs sunnudaginn 1. mars kl. 15:00 í Fischersetrinu.

Friðrik Ólafsson varð fyrstur Íslendinga til að hljóta útnefningu sem stórmeistari í skák og sá skákmaður íslenskur sem einna lengst hefur náð á alþjóðavettvangi. Hann var um árabil talinn einn af tíu bestu skákmönnum heims. Friðrik afrekaði það m.a. að leggja Bobby Fischer í tvígang. Friðrik varð að loknum farsælum skákferli forseti alþjóðaskáksambandsins FIDE og síðar skrifstofustjóri Alþingis.

Fischersetur býður til afmælisveislu þar sem Friðrik mun halda fyrirlestur um skákferil sinn með sérstakri áherslu á þemað: „Að fórna skiptamun í skák.“

Að loknum fyrirlestri Friðriks verður afhjúpað olíumálverk af heimsmeistaranum Bobby Fischer sem Sigurður Kr. Árnason hefur nýverið lokið við að mála. Verkið er gjöf höfundar og þeirra Guðmundar G. Þórarinssonar og Einars. S. Einarssonar til Fischerseturs. Málverkið afhent að viðstöddum listamanninum. Þess má geta að listamaðurinn málaði frægt verk af Fischer og Spassky sem uppi hangir í safninu.

Fyrri greinFSu rúllaði yfir Blika
Næsta greinVelferðar- og fjárlagatvist