Afl og afhendingaröryggi aukið í Vík

Séð yfir Vík í Mýrdal, í austur af Reynisfjalli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Miðvikudaginn 22. október verður skipt um spenni í aðveitustöð Rarik á Vík í Mýrdal. Eldri spennir verður fjarlægður og stærri spennir settur í hans stað en þegar hafa farið fram nokkrar endurbætur á aðveitustöðinni.

Aðgerðin er liður í að auka afl á svæðinu og styrkja dreifikerfið. Stækkunin kemur til með að auka tiltækt afl frá aðveitustöðinni úr 6,3 MW í 10 MW.

Vegna spennaskiptanna verður rafmagn framleitt með varaaflsvélum fyrir svæðið frá kl. 8:00-20:00 á miðvikudag. Ekki ætti því að koma til rafmagnstruflana hjá viðskiptavinum af þessum sökum. Rarik vill þó minna á að keyrsla varaafls er viðkvæm fyrir álagi og biðlar til viðskiptavina sinna á svæðinu að fara sparlega með rafmagn meðan á varaaflskeyrslunni stendur.

Til dæmis má koma í veg fyrir óþarfa álag með því að slökkva á ljósum og raftækjum sem ekki eru í notkun, bíða með að setja af stað þvottavélar, þurrkara og uppþvottavélar og fresta hleðslu rafbíla og annarra stórra tækja þar til aðgerðin er yfirstaðin.

Nýr strengur undir Kaldaklifsá
Sama dag munu framkvæmdaflokkar Rarik nýta tækifærið til að tengja nýjan streng undir Kaldaklifsá. Eftir tíð rafmagnsleysi vegna skemmda á jarðstrengjum í árfarvegum á svæðinu síðasta vetur var farið í þá aðgerð að bora og setja rör fyrir strengi undir fimm árfarvegi sem Víkurstrengur hafði verið plægður ofan í. Þetta er samskonar aðgerð og þegar rör var sett undir Skógá í desember 2024 eftir að strengurinn fór þar í sundur.

Þegar hafa verið tengdir tveir strengir af þessum fimm, annar undir Holtsá og hinn undir Laugará, og verður strengurinn undir Kaldaklifsá sá þriðji í röðinni. Eftir á að tengja strengi undir Svaðbælisá og Írá. Þessar tengingar ættu að auka afhendingaröryggi á Vík og í Mýrdal verulega.

Í frétt frá Rarik er beðist velvirðingar á því ónæði sem keyrsla varaafls kann að valda þeim sem búa og starfa í nágrenni varaaflsstöðvanna meðan á aðgerðinni stendur. Meðan varaaflsvélarnar sjá um að framleiða rafmagn mun fara fram mæling á hljóðmengun frá þeim svo hægt sé að meta hvort gera þurfi úrbætur á umgjörð þeirra.

Það er von Rarik að íbúar á svæðinu séu tilbúnir að leggja Rarik lið með því að koma þessum upplýsingum áfram til þeirra sem gætu hafa misst af þeim og halda álagi vegna rafmagnsnotkunar í lágmarki. Með góðri samstöðu ætti keyrsla varaafls að ganga vel og ekki að hafa mikil áhrif á íbúa og gesti sveitarfélagsins.

Fyrri greinEygló ráðin aftur til Skaftárhrepps
Næsta greinÞyrlan kölluð út vegna slyss við Langjökul