Afköst við lofthreinsun Hellisheiðarvirkjunar tvöfölduð

Ákveðið hefur verið að tvöfalda afköst lofthreinsistöðvar Hellisheiðarvirkjunar þannig að hún hreinsi allt að 60% brennisteins í útblæstri virkjunarinnar á árinu 2016.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, greindi frá þessu á ársfundi fyrirtækisins í gær.

Bjarni lýsti því yfir á sínum tíma að útblástur brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun væri „stærsti umhverfisvandi sem Orkuveitan glímdi við.“

Hann sagði við gesti ársfundarins í Gamla bíói í gær að fyrirtækið hefði nú náð tökum á viðfangsefninu og þakkaði það „vísindalegu vopnabúri Orkuveitunnar og framúrskarandi samstarfi fræðimanna og rekstrarmanna innan og utan fyrirtækisins.“

Lofthreinsistöð var tekin í gagnið við Hellisheiðarvirkjun í tilraunaskyni í júní 2014. Hún hreinsar 25-30% brennisteinsvetnis í útblæstrinum, blandar því í vinnslusvatn virkjunarinnar og dælir niður á um 800 metra dýpi

Ákveðið er nú að stækka stöðina og tvöfalda afköst hreinsunar. Eftir það verður styrkur brennisteins í útblæstri kominn langt niður fyrir mörk í vinnsluleyfi virkjunarinnar, að því er segir í frétt frá fyrirtækinu.

Fyrri greinGunnar hættur með Selfossliðið
Næsta greinÞór Íslandsmeistari í -90 kg flokki