Afhentu Unicef hálfa milljón króna

Fulltrúi Unicef á Íslandi tók í vikunni á móti hálfrar milljón króna ávísun frá Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurlands. Peningunum söfnuðu nemendur og starfsmenn skólans á árvissri góðgerðaviku í október.

Góðgerðavikan einkenndist af gleðilegri viðbót í hefðbundnu skólastarfi haustsins. Á dögunum fór fram ýmiskonar fræðsla og skemmtun, nemendafélagið stóð fyrir fatasöfnun, markaðstorgi og happdrætti með veglegum vinningum, styrktum af fyrirtækjum á svæðinu.

Síðast en ekki síst sameinuðust kennarar og nemendur í áskoranaleik, þar sem fé til góðgerðamála var lagt undir. Í ár var ákveðið allt fé sem safnaðist skyldi renna til hjálparstarfs Unicef í Sýrlandi og lét enginn sitt eftir liggja. Mest fé safnaðist í áskorun á Dagmar Stefánsdóttur, nemanda við skólann, sem lét raka af sér síða hárið á lokahátíð dagana, fyrir 250 þúsund krónur.

Flóki Guðmundsson, fjáröflunarstjóri Unicef, tók formlega við söfnunarfénu úr hendi Rakelar Lindar Úlfhéðinsdóttur, formanns NFSu og Svavars Berg Jóhannssonar gjaldkera. Við athöfnina fluttu nemendur tónlistaratriði og Flóki sagði nemendum frá því til hvaða mikilvægu mála megi nýta slíka peningaupphæð.

Fyrri greinGóðverkin kalla! í Hellubíói
Næsta greinGönguferð að flóðgáttinni