Afhentu Tækniskólanum veglega gjöf

Á dögunum tóku kennarar og skólastjóri Tækniskólans við veglegri gjöf frá sunnlenska fyrirtækinu Gjöfull varmagjafi, Tengi, Blikksmiðjunni Vík og Hitaveitu Grímsnes- og Grafningshrepps.

Gjöfin samanstendur af hitaveitugrind, skáp, hemli og forðakút sem hentar vel til uppsetningar þar sem hitaveita er takmörkuð gegnum hemil.

Sandra Björg Gunnarsdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi Gjöfuls varmagjafa, segir að það sé mikilvægt að nemendur í iðngreinum hafi aðgang að góðum búnaði til að vinna með í verklegri kennslu.

„Það er okkur sannur heiður að fá að styrkja stoðir þess framúrskarandi náms sem fer fram í pípulagningadeild Tækniskólans, þetta mun vonandi nýtast þeim í framtíðinni þegar velja þarf réttan búnað við mismunandi aðstæður,“ sagði Sandra við afhendingu gjafarinnar.

Mikilvægt að hafa aðgang að góðum búnaði
Kennarar pípulagningadeildar skólans, auk skólastjóra tóku undir orð Söndru Bjargar um mikilvægi þess að hafa aðgang að góðum búnaði í kennslu en bættu einnig við að fyrirtæki ættu að sjá hag sinn í að veita gjafir sem þessar enda uppskeri þau sterkari iðnmenntað starfsfólk út á vinnumarkaðinn í kjölfarið.

„Í sumarhúsum þar sem hitaveita er takmörkuð gegnum hemil fást að jafnaði 3-5 lítrar á mínútu af heitu vatni,“ segir Gísli Tómasson pípulagningameistari. „Það gefur ágætlega mikið magn á sólarhring en kraftur heita vatnsins er ekki nálægt því sem við höfum vanist í þéttbýlum landsins. Algengt er að hitaveita sé leidd beint inn á neysluvatnskerfi sumarhúsa, en það skapar einnig aukna hættu á kostnaðarsömum tjónum.

Hitaveituvatn er ekki skilgreint sem neysluvatn
Þorsteinn Árnason, byggingartæknifræðingur og annar eigandi Gjöfuls varmagjafa, segir að vert sé að benda á í þessu samhengi að hitaveituvatn er ekki skilgreint sem neysluvatn og því ekki æskilegt að leiða það inn á neysluvatnslagnir innanhúss.

„Efnainnihald í hitaveituvatni veldur mikilli útfellingu í og við blöndunartæki sem skerðir endingartíma þeirra með tilheyrandi kostnaði. Hægt er í einhverjum tilfellum að kaupa aukið magn af heitu vatni gegnum hemilinn en þó svo sé gert verður þrýstingur á heitu vatni aldrei til jafns við það kalda og aukinn fastur kostnaður leggst á sumarhúsaeigendur í kjölfarið,“ segir Þorsteinn.

Forðakúturinn, sem Gjöfull varmagjafi hefur þróað í samstarfi við norska framleiðandann Høiax, kemur í veg fyrir vandamál á þessum jaðarsvæðum. Tenging kútsins við hitaveitugrind með hemli jafnar þrýsting á heitu og köldu vatni ásamt því að bæta endingartíma lagna og blöndunartækja. Þá kemur búnaðurinn einnig í veg fyrir kostnaðarsöm tjón sem oft fylgja því þegar hitaveita er tengd beint inn í lagnir húsa.


Böðvar Ingi Guðbjartsson kennari í pípulagningum og Sandra Björg Gunnarsdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi Gjöfuls varmagjafa.


Gísli Tómasson, pípulagningameistari og annar eigandi Gjöfuls varmagjafa.

Fyrri greinJana Lind Íþróttamaður Garps
Næsta greinUnnu silfurverðlaun á sterku móti í Aþenu