Afhendir Flóahreppi eignarhluti sína í félagsheimilunum

Ungmennafélagið Þjótandi, hið nýja ungmennafélag í Flóahreppi, hefur samþykkt að afhenda sveitarfélaginu eignarhluti sína í félagsheimilunum þremur, Félagslundi, Þingborg og Þjórsárveri.

Þetta var samþykkt á aðalfundi félagsins í mars síðastliðnum en Guðmunda Ólafsdóttir, formaður Þjótanda, mætti á fund sveitarstjórnar í vikunni og greindi frá þessu.

Félagið óskar eftir því að gerður verði samstarfssamningur við sveitarfélagið sem kveður á um að Þjótandi fá afnotarétt af félagsheimilunum til framtíðar. Þannig verði tryggt að sveitungarnir geti áfram litið á húsin sem sína eign.

Sveitarstjórn þakkaði ungmennafélaginu góðar gjafir og var sveitarstjóra falið að vinna drög að samstarfssamningi. Fram að þeim tíma sem hann verður samþykktur þá gildir samkomulag Flóahrepps við gömlu félögin þrjú um afnot og framlög til starfsins.