Affallsvatnið breytir spennustiginu

Skjálftarnir sem urðu við Hellisheiðarvirkjun kl. 9:03 og 9:46 í morgun, voru báðir af stærðinni 4 en fundust misvel eftir því í hvaða sprungu þeir urðu.

Þetta segir Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Þetta eru manngerðir jarðskjálftar og það hafa komið þarna nokkrar hrinur síðan í september en þetta eru kannski stærstu skjálftarnir hingað til,“ segir Gunnar. Hann segir Orkuveituna stöðugt láta renna niður í fjórar, fimm holur affallsvatn úr Heillisheiðarvirkjun en það er þeim skylt að gera samkvæmt starfsleyfi virkjunarinnar.

„Með því að láta vatn renna þarna breyta þeir eitthvað spennusviðinu í nágrenninu. Það er allt sprungið þarna bergið og vatnið fer niður í sprungurnar og minnkar svokallaða lárétta spennu, og svo er alltaf spenna á svæðinu vegna landreks og annað, og þá getur þetta hlaupið eða hrokkið til,“ segir Gunnar.

Orkustofnun vinnur nú að úttekt sem á að varpa ljósi á eðli skjálftanna og meta hvaða áhrif smáskjálftarnir hafi á spennuástand í jarðlögum og hugsanlegar breytingar á skjálftavirkni til lengri tíma.

Segir m.a. á heimasíðu stofnunarinnar að íbúar nærliggjandi byggða velti því fyrir sér hvort manngerð skjálftavirknin hafi aukna hættu í för með sér og hvort ástandið verði viðvarandi.

„Ef þessi virkni heldur áfram með þessum stærri skjálftum þá held ég að það gangi nú ekki til lengri tíma,“ segir Gunnar. „Við vitum að sunnan við svæðið þá geta orðið stærri skjálftar upp á 5-6 stig,“ segir hann. Spurningin sé hvort manngerðir skjálftarnir auki virkni á svæðinu og verði valdir að stærri skjálfta.

Niðurstaða úttektar Orkustofnunnar á að liggja fyrir á næstu dögum.

mbl.is