Áfengi stolið í Kjöt og kúnst

Brotist var inn í veitingastaðinn Kjöt og kúnst við Breiðumörk í Hveragerði aðfaranótt laugardags og þaðan stolið áfengi.

Á milli kl. kl. 3 og 4 sást til dökkblárrar Toyota Corolla bifreiðar, gæti verið árgerð 1997 -8, lagt við veitingastaðinn. Tveir menn sáust fara út úr bifreiðinni og ganga að veitingastaðnum.

Bifreiðinni var svo ekið í burtu en kom skömmu síðar og mennirnir tveir settust inn í hana. Í ljós kom að af veitingastaðnum var stolið nokkrum áfengisflöskum og bjór.

Lögreglan biður þá sem geta gefið upplýsingar um málið eða þekkir til lýsingar á ökutækinu að hafa samband í síma 480 1010.