Af litlum neista…

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Árnesi var kallað út á ellefta tímanum í gærkvöldi eftir að eldur kviknaði í sinu í sumarhúsahverfi austan við Árnes í Gnúpverjahreppi.

Slökkvistarf gekk ágætlega og tókst að forða því að eldurinn bærist í hús en um 100 fermetrar af gróðri brunnu. Talið er eldurinn hafi kviknað út frá flugeldi.

Í tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu segir að einstaklega þurrt sé nú á suðvesturhorninu og lítið þurfi til að koma af stað gróðureldum, sem geta valdið mikilli eyðileggingu á gróðri, dýralífi og jafnvel sett menn og mannvirki í hættu.

Brunavarnir Árnessýslu vilja því árétta að fólk sýni ýtrustu varkárni nú um áramótin við notkun á flugeldum og meðferð elds. Þar getur sannast hið fornkveðna að af litlum neista verður oft mikið bál.

Fyrri greinÓmar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins
Næsta greinRéttindalaus vörubílstjóri stöðvaður