„Af hverju ekki að ráðast á meinið þar sem það er staðsett?“

Tómas Ellert Tómasson. Ljósmynd/Aðsend

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum í haust.

Kjördæmaráð Miðflokksins í kjördæminu samþykkti tillögu uppstillingarnefndar á fundi sínum í gærkvöldi.

Tómas Ellert segist í samtali við sunnlenska.is ákaflega spenntur fyrir komandi kosningabaráttu. „Þarna er frábært fólk á framboðslista og ég vænti góðs árangurs í kosningunum í september, því þarna er fólk sem er ekki með eitthvað blaður og fjas um ekki neitt, heldur vel gert og vel meinandi fólk sem lætur verkin tala.“

Hann segir að sér hafi í fyrstu þótt sú hugmynd að þiggja boðið um að taka 2. sæti á lista í Reykjavík norður nokkuð fjarstæðukennd.

„En þegar ég var búinn að melta hugmyndina í fimm mínútur, að þá fannst mér hún frábær. Af hverju ekki bara að ráðast á meinið þar sem að það er staðsett í stað þess reyna að vinna á því úr 60 km fjarlægð í þeirri veiku von að það náist einhver hlustun á alþingi okkar Íslendinga. Líkt og margir vita þá höfum við í bæjarráði Árborgar margoft sent frá okkur yfirlýsingar og óskir um bættar samgöngur hér á svæðinu og um byggingu nýrrar Selfossbrúar yfir Ölfusá hið snarasta, án þess að á það sé hlustað. Brú sem ætti samkvæmt öllu eðlilegu að vera komin í gagnið fyrir nokkrum árum.“

Tómas Ellert bætir við að hann vilji berjast fyrir ýmsu öðru en bættum samgöngum í sínu heimahéraði.

„Að mínu mati hefur vantað verulega mikið upp á það undanfarin ár að Reykjavík sé að rækja hlutverk sitt sem höfuðborg allra landsmanna og það virðist svo vera að flestöllum alþingismönnum Reykvíkinga sé alveg sama um það hlutverk borgarinnar. Það er þvílíkt virðingarleysi við þjóðina verð ég að segja. Það hefur sem dæmi verið látið viðgangast af Alþingi að borgarstjórn þrengi óhóflega að Reykjavíkurflugvelli og er það reyndar yfirlýst markmið meirihluta hennar að bola honum í burtu og þá helst flytja hann á virkt eldfjallasvæði, eins viturlegt og það nú er. Einnig eru samgönguæðar að og frá borginni þar sem flestallar opinberar stofnanir eru staðsettar með allra versta móti. Það er hreint út sagt óþolandi ástand í þeim málum og þá sérstaklega þegar horft er til þess að við sem búum á landsbyggðinni erum skikkuð til að sækja okkur margvíslega heilbrigðisþjónustu á Landspítalann við Hringbraut,“ segir Tómas Ellert ennfremur.

„Svar ríkisins við þessu er algjört undanhald gagnvart flugvellinum og síðan að setja á stofn eitthvað félag kallað Betri samgöngur ohf sem á að dæla í tugum ef ekki hundruðum milljarða króna af skattfé okkar landsmanna í. Ég skil reyndar ekki afhverju Sjálfstæðisflokkurinn er að láta draga sig út í þá vitleysu og setja sig síðan yfir stjórn þess furðufélags því ég myndi ætla að sá flokkur sem telur sig merkisbera þess að fara vel með skattfé borgaranna myndu stöðva það fyrirbæri í fæðingu. En nei, þá hoppa þeir með glöðu geði í þetta svokallaða félagshagfræðilega greiningarsamstarf með meirihluta borgarstjórnar,“ segir Tómas Ellert að lokum.

Fyrri greinFjórir stútar undir stýri
Næsta greinSelfoss fer til Tékklands í 1. umferð