Ævintýraleiðsögunám án staðsetningar

Ljósmynd/Aðsend

Keilir eykur sveigjanleika leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku með bóklegu fjarnámi í því skyni að koma betur til móts við nemendur á landsbyggðinni.

Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku er átta mánaða nám á háskólastigi. Námið hefur verið kennt við Keili frá árinu 2013 í samstarfi við Thompson Rivers University í Kanada, einn virtasta skóla í heiminum í dag í sérhæfðu námi í ævintýra- og afþreyingarferðaþjónustu. Um hundrað nemendur hafa sótt námið við góðan orðstír. Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir haustið 2021, en næsti árgangur mun stunda námið með breyttu fyrirkomulagi.

„Eftir sem áður fer helmingur námstímans fram víðs vegar um í náttúru Íslands. Við erum mikið með verklega áfanga á Suðurlandinu, auk þess sem nokkrir áfangar fara fram bæði á Norðurlandi og Suðausturhorni landsins,“ segir Ragnar Þór Þrastarson, forstöðumaður námsins. „Megin breytingin milli ára er að bóklegir áfangar fara nú fram í fjarnámi, þannig að námið hentar vel þeim sem eru búsettir á landsbyggðinni eða vilja sveigjanleika í sínu námi.“

Samkvæmt Ragnari veitir ástandið í ferðaþjónustunni um þessar mundir einstakt tækifæri til að sækja menntun og færni fyrir komandi tíma. „Ævintýraferðamennska hefur verið ein örast vaxandi grein innan ferðaþjónustunnar í heiminum í dag, en ævintýraferðamenn eru að jafnaði betur menntaðir, með hærri tekjur, og eyða talsvert lengri tíma og meiri peningum á ferðalögum sínum en hefðbundnir ferðamenn,“ segir Ragnar.

Á næstu misserum verða gríðarleg tækifæri á Íslandi við að byggja enn frekar upp þessa grein ferðaþjónustunnar. „Hér er allt sem til þarf til að viðhalda ferðaþjónustunni, óspillt náttúra, hrikalegt landslag og rík menning. Þetta eru kjöraðstæður til að sækja sér sérhæft og hagnýtt leiðsögunám í fallegustu skólastofu landsins. Landinu sjálfu,“ segir Ragnar að lokum.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMarkalaust í Hveragerði – Stokkseyri tapaði
Næsta greinSöngöskraði á Jón Jónsson